Á­kveðið hefur verið að af­létta rýmingu húsa á Flat­eyri sem rýmd voru í öryggis­skyni í gær vegna snjó­flóða­hættu. Tvö flóð hafa fallið við bæinn, bæði til­tölu­lega lítil en annað er talið hafa fallið í nótt. Þetta kemur fram á vef Veður­stofu Ís­lands.

Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gær­kvöldi og minni úr­koma hefur mælst á sjálf­virkum úr­komu­mælum á svæðinu. Snjó­dýpt í upp­taka­svæðum ofan Flat­eyrar hefur ekki aukist um­tals­vert síðan í gær.

„Í morgun sást að snjó­flóð hafði fallið úr Innra-Bæjar­gili á Flat­eyri í nótt og snjó­flóð sást falla úr Skolla­hvilft um kl. 10. Flóðið úr Skolla­hvilft féll niður með leiði­garðinum ofan byggðarinnar og stöðvaðist skammt utan við veginn að Sól­bakka,“ segir á vef Veður­stofunnar.

Flóðið úr Innra-Bæjar­gili féll niður undir ytri varnar­garðinn en náði ekki niður með honum. Lítil snjó­flóð hafa fallið úr Innra-Bæjar­gili og Skolla­hvilft í morgun og er á­fram talin hætta af völdum snjó­flóða utan við garðana þó rýmingu húsa neðan garðanna hafi verið af­létt.

Að mati Veður­stofunnar er einnig til­efni til að á­rétta að ó­vissu­stig vegna snjó­flóða­hættu á norðan­verðum Vest­fjörðum er enn við líði og rýmingu nokkurra at­vinnu­húsa undir Selja­lands­hlíð á Ísa­firði hefur ekki verið af­létt. Veg­far­endur og ferða­langar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjó­flóð geta fallið.

Í nótt féll snjó­flóð á veginn um Eyrar­hlíð, milli Ísa­fjarðar og Hnífs­dals. Vegurinn var opinn með ó­vissu­stigi um snjó­flóða­hættu en var lokað í kjöl­farið. Snjó­flóð féll einnig síðla dags í gær eða í nótt á veginn um Bjarna­dal í Önundar­firði á leiðinni upp á Gemlu­falls­heiði en hann hafði verið lokaður síðan í gær. Í gær­morgun féll all­stórt snjó­flóð yfir Flat­eyrar­veg um Sela­bólsurð.

Búist er við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður á­fram fylgst með að­stæðum. Ó­vissa er um hversu mikil ofan­koma verður í élja­ganginum næstu tvo sólar­hringa en það ræður miklu um hversu mikil snjó­flóða­hættan skapast á hverjum stað.

Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá.
Ljósmynd/Veðurstofa Íslands