Ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu húsa á Flateyri sem rýmd voru í öryggisskyni í gær vegna snjóflóðahættu. Tvö flóð hafa fallið við bæinn, bæði tiltölulega lítil en annað er talið hafa fallið í nótt. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.
Heldur hefur dregið úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma hefur mælst á sjálfvirkum úrkomumælum á svæðinu. Snjódýpt í upptakasvæðum ofan Flateyrar hefur ekki aukist umtalsvert síðan í gær.
„Í morgun sást að snjóflóð hafði fallið úr Innra-Bæjargili á Flateyri í nótt og snjóflóð sást falla úr Skollahvilft um kl. 10. Flóðið úr Skollahvilft féll niður með leiðigarðinum ofan byggðarinnar og stöðvaðist skammt utan við veginn að Sólbakka,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Flóðið úr Innra-Bæjargili féll niður undir ytri varnargarðinn en náði ekki niður með honum. Lítil snjóflóð hafa fallið úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft í morgun og er áfram talin hætta af völdum snjóflóða utan við garðana þó rýmingu húsa neðan garðanna hafi verið aflétt.
Að mati Veðurstofunnar er einnig tilefni til að árétta að óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum er enn við líði og rýmingu nokkurra atvinnuhúsa undir Seljalandshlíð á Ísafirði hefur ekki verið aflétt. Vegfarendur og ferðalangar þurfa því að hafa varann á þegar þeir fara um svæði þar sem snjóflóð geta fallið.
Í nótt féll snjóflóð á veginn um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi um snjóflóðahættu en var lokað í kjölfarið. Snjóflóð féll einnig síðla dags í gær eða í nótt á veginn um Bjarnadal í Önundarfirði á leiðinni upp á Gemlufallsheiði en hann hafði verið lokaður síðan í gær. Í gærmorgun féll allstórt snjóflóð yfir Flateyrarveg um Selabólsurð.
Búist er við NA-strekkings vindi og éljum í dag og á morgun og verður áfram fylgst með aðstæðum. Óvissa er um hversu mikil ofankoma verður í éljaganginum næstu tvo sólarhringa en það ræður miklu um hversu mikil snjóflóðahættan skapast á hverjum stað.
