Við­búnaðar­stig vegna snjó­flóða­hættu á Norður­landi hefur verið hækkað í hættu­stig af Veður­stofu Ís­lands. Reitur syðst á Siglu­firði verður rýmdur og lög­regla mun hafa sam­band við þá sem þurfa að rýma svæðið. Snjó­flóð féll á skíða­svæðið í Skarðs­dal á Siglu­firði í morgun en svæðið var mann­laust er flóðið féll.

Virkjuð hefur verið að­gerðar­stjórn á Akur­eyri og til að tryggja flæði upp­lýsinga komið á stöðugum sam­skiptum við alla hlutað­eig­andi aðila. Lög­reglu­stjórinn á Norður­landi eystra og al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra munu fylgjast á­fram með fram­vindu mála í sam­starfi við Veður­stofu Ís­lands. Al­manna­varna­deild hefur óskað eftir því við Land­helgis­gæsluna að varð­skip verði á svæðinu til að­stoðar er mun varð­skipið Týr á leiðinni norður.

Á­fram verður fylgst náið með að­stæðum á Trölla­skaga og við­eig­andi ráð­stafanir gerðar þörf krefur að því er segir í til­kynningu frá al­manna­vörnum. Í­búar og aðrir sem eru á þessu svæði eru beðnir um að fylgjast vel með veður­spá en búast má við tals­verði ofan­komu á Trölla­skaga fram yfir helgi.

Tröllaskagi.
Mynd/Gísli Berg

Síðan á mánu­dag hefur verið nokkuð stíf norð­læg átt með snjó­komu á svæðinu og tals­verð úr­koma á an­nesjum Norðan­lands. Í gær féll snjó­flóð yfir Ólafs­fjarðar­veg og lokaði veginum. Í dag sáust tals­vert stór snjó­flóð úr Ós­brekku­fjalli í Ólafs­firði og féll eitt þeirra í sjó fram. Spáð er stífri norðan- og norð­austan­átt með snjó­komu og éljum fram yfir helgi.