Lögregla í danska bænum Middelfart hefur rýmt svæði á hundrað metra radíus í kringum ráðhús bæjarins eftir að ókunnur maður braust þar inn og víggirti sig. Löggreglan telur að maðurinn kunni að hafa borið með sér sprengiefni inn í ráðhúsið. Aðstöðu hefur verið komið upp í menningarmiðstöð Middelfart fyrir bæjarbúa sem hafa þurft að færa sig um set vegna rýmingarinnar.

Bæjarbúum á svæðinu var leyft að snúa heim til sín þegar klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í þrjú. Ráðhúsið var þó áfram lokað almenningi.

Lögreglan tilkynnti stuttu eftir klukkan fimm að innbrotsmaðurinn, sem er Dani í kringum sextugt, hefði fundist látinn inni í ráðhúsinu. Dánarorsök mannsins er enn óljós.