Rýming Seyðis­fjarðar verður í gildi í allan dag. Staðan verður metin aftur í fyrra­málið. Unnið er að stöðu­mati á inn­viðum eins og raf­magni, vatns­veitu, frá­veitu og fleira. Þá er hættu­stig vegna aur­skriða og neyðar­stig al­manna­varna eftir at­burði gær­dagsins.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Austur­landi. Þar segir að fundur hafi verið haldinn með al­manna­varna­deild Ríkis­lög­reglu­stjóra, að­gerða­stjórn á Austur­landi á­samt Veður­stofunni vegna at­burðanna á Seyðis­firði síðustu daga.

Næstu til­kynningar um málið er að vænta á milli klukkan 13 og 14 í dag.

Bærinn var rýmdur í gær­kvöldi og allir í­búar fluttir til Egils­staða þar sem að Rauði kross Ís­lands hefur komið upp fjölda­hjálpar­stöð. Alls skráðu sig þar um 550 Seyð­firðingar í gær. Þá voru einnig rýmd tals­verður fjöldi húsa á Eski­firði vegna hættu­stigs sem sett var á þar.

Enn eru tals­verðar líkur á skriðu­­föllum á Seyðis­­firði en lík­­lega sér fyrir endann á rigningunni í dag.

Mikil eyði­legging

Stór aur­skriða féll úr Botna­brún, milli Búðar­ár og Stöðvar­lækjar, skömmu fyrir klukkan þrjú í gær og féll á tíu hús. Eitt hús skemmdist í skriðu nóttina áður. Frekar á eftir að meta tjón á staðnum. Í kjöl­farið á­kvað Ríkis­lög­­reglu­­stjóri að hækka al­manna­varna­­stig á Seyðis­­firði úr hættu­­stigi í neyðar­­stig. Allir í­búar og aðrir á Seyðis­­firði voru beðnir um að mæta í fé­lags­heimilið Herðu­breið og gefa sig fram í fjölda­hjálpar­­stöð Rauða krossins eða hringja í síma 1717. Síðar var á­­kveðið að Seyðis­fjörður yrði rýmdur. Að sögn viðbragðsaðila gekk það vel.

Ofan­­­flóða­vakt Veður­­stofu Ís­lands á­kvað eftir að skriðan féll að kanna betur á­standið í öðrum fjörðum. Kom í ljós að sprungur í gamla Odd­skarðs­veginum ofan Eski­fjarðar höfðu stækkað og í kjöl­farið var á­­kveðið að rýma hluta af Eski­­firði og var opnuð fjölda­hjálpa­stöð þar.

Allar björgunar­sveitir á Austur­landi hafa verið boðaðar á­­samt sér­­­sveit ríkis­lög­­reglu­­stjóra og lög­­reglunni á Norður­landi eystra einnig verið send á staðinn.

Skriðurnar féllu á nokkrum stöðum.
Mynd/Fréttablaðið