Ákveðið var að rýma ákveðin svæði á Seyðisfirði í gær vegna áframhaldandi úrkomuspár. Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi kemur fram að rýmingin verði endurskoðuð um hádegisbil í dag.

Um hádegi ætti að stytta upp að mestu á Austfjörðum en í kvöld kemur annar úrkomubakki upp að ströndinni sem verður líklega slydda eða snjókoma.

Ekki hafa borist fréttir af skriðuföllum á Austfjörðum í gær eða nótt en úrkomumælingar á Seyðisfirði sýna samtals 40-45 mm síðan í gærkvöldi. Ákefðin fór upp í 6-7 mm á klukkustund síðla nætur og nú í morgun. Heildarúrkoma síðan á sunnudag er nú komin í um 90-110 mm á sjálfvirku veðurstöðvunum þremur í firðinum. Nokkru meiri úrkoma mældist á veðurstöðvum sunnar á fjörðunum, Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Neskaupstað.

Engin marktæk hreyfing á jarðlögum í hlíðinni hefur mælst í nótt.