Bresk kona á fertugsaldri var flutt á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í gær eftir að hún féll í hálku á göngustígnum við Gullfoss.

Sjúkraflutningarmenn HSU mættu á svæðið og kölluðu eftir aðstoð björgunarsveita við að sækja konuna en mikil ísing var á svæðinu og erfitt að flytja hana að sjúkrabílnum.

Ákveðið var að rýma svæðið eftir slysið þar sem aðstæður voru taldar of hættulegar fyrir ferðamenn.

„Þetta voru svolítið erfiðar aðstæður og þurfti þónokkurn mannskap til að aðstoða við flutninginn,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

„Ótrúlegt en satt þá get ég ekki kvartað yfir mönnunarmálum. Ég man ekki eftir að hafa sagt þetta nokkurn tímann.“

Verkefnum tengdum ferðamönnum fjölgar hjá HSU

Konan sneri upp á hnéð á sér en var ekki alvarlega slösuð að sögn Hermanns Marinós Maggýjarssonar, varðstjóra sjúkraflutninga við HSU. Hann segir að verkefnum tengdum ferðamönnum hefur fjölgað í fyrsta sinn frá því að heimsfaraldur Covid hófst.

„Helstu verkefnin tengjast slysum í hálku, bílveltu, utanvegaakstri og slysum í fjallgöngum. Við finnum að slysum erlendra ferðamanna hefur fjölgað í fyrsta sinn í langan tíma. Við fundum aðeins fyrir þessu í sumar en það voru helst íslenskir ferðamenn,“ segir Hermann Marinó í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður um mönnunarmál segir Hermann þau vera góð.

„Ótrúlegt en satt þá get ég ekki kvartað yfir mönnunarmálum. Ég man ekki eftir að hafa sagt þetta nokkurn tímann en við erum ágætlega í stakk búin að takast á við þessi verkefni.“