Rýma þurfti tvö hús í Vík í Mýr­dal vegna snjó­flóða­hættu á sjöunda tímanum í kvöld, en húsin eru hluti af hótel­byggingu. Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn lögreglunnar á Suður­landi, segir að búið sé að koma fólkinu í öruggt skjól.

„Ég er ekki með töluna á því hversu margir þetta voru en þetta voru níu her­bergi sem þurfti að rýma og var fólkinu komið í önnur hús á sama hóteli,“ segir Oddur.

Spurður segir Oddur ekki standa til að rýma fleiri hús að svo stöddu. Rýmingin hafi verið hluti af öryggis­ráð­stöfun, en veðrið sé nú þokka­legt á svæðinu.

„Það er á­gætt veður og mikil ró­leg­heit yfir öllu. Stór hluti af þeim ferða­mönnum sem voru þarna strand eru komnir af stað, annað­hvort til austurs eða vesturs. Alveg frá því klukkan tvö í dag hefur verið stans­laus straumur þarna af fólki, bæði til bæjarins og frá, þannig að þetta er svo­lítið dottið í það að vera hefð­bundinn dagur,“ segir Oddur.

Hins vegar séu allar líkur á því að nóttin verði erfið sökum lægðarinnar sem spáð hefur verið.

„Það verður tölu­vert mikil úr­koma og það er sama, eins og til dæmis á Hellis­heiðinni. Það verður vont ferða­veður á henni yfir blá­nóttina. Þannig að við gerum ráð fyrir að nóttin verði erfið“ segir Oddur.