Rýma þurfti tvö hús í Vík í Mýrdal vegna snjóflóðahættu á sjöunda tímanum í kvöld, en húsin eru hluti af hótelbyggingu. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir að búið sé að koma fólkinu í öruggt skjól.
„Ég er ekki með töluna á því hversu margir þetta voru en þetta voru níu herbergi sem þurfti að rýma og var fólkinu komið í önnur hús á sama hóteli,“ segir Oddur.
Spurður segir Oddur ekki standa til að rýma fleiri hús að svo stöddu. Rýmingin hafi verið hluti af öryggisráðstöfun, en veðrið sé nú þokkalegt á svæðinu.
„Það er ágætt veður og mikil rólegheit yfir öllu. Stór hluti af þeim ferðamönnum sem voru þarna strand eru komnir af stað, annaðhvort til austurs eða vesturs. Alveg frá því klukkan tvö í dag hefur verið stanslaus straumur þarna af fólki, bæði til bæjarins og frá, þannig að þetta er svolítið dottið í það að vera hefðbundinn dagur,“ segir Oddur.
Hins vegar séu allar líkur á því að nóttin verði erfið sökum lægðarinnar sem spáð hefur verið.
„Það verður töluvert mikil úrkoma og það er sama, eins og til dæmis á Hellisheiðinni. Það verður vont ferðaveður á henni yfir blánóttina. Þannig að við gerum ráð fyrir að nóttin verði erfið“ segir Oddur.