Alls er búið að rýma níu hús við Lauga­veg og Norður­brún í Varma­hlíð eftir að aur­skriða féll skyndi­lega um klukkan 16 í dag. Ekkert mann­tjón varð sem betur fer að sögn Höskuldar Birkis Er­lings­sonar, varð­stjóra hjá Lög­reglunni á Norður­landi Vestra.

Við­bragðs­aðilar funduðu í kvöld vegna aur­skriðunnar.

„Það er verið að fara yfir stöðuna vegna skriðunnar og hvort það sé hætta á því að hún fari aftur af stað, hluti hennar eða það komi skriða annars staðar. Það er það sem er verið að rann­saka núna með tækni­fólki og verk­fræðingum hjá sveitar­fé­laginu Skaga­firði,“ segir Höskuldur.

Húsin sem hafa verið rýmd eru við bæði Norðurbrún og Laugaveg en skriðan féll niður á milli húsa sem standa við Laugaveg.
Skjáskot/ja.is

Bjuggust ekki við þessu

Hann segir að göturnar séu lokaðar og það er gæsla á staðnum. Hann segir að enginn íbúi hafi fengið að fara heim til sín og átti ekki von á því að það myndi gerast fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Er þetta eitt­hvað sem var búist við?

„Við bjuggumst ekki við þessu,“ segir Höskuldur en íbúi götunnar sagði fyrr í dag að bæjar­yfir­völd hefðu vitað af hættunni í um fjóra mánuði.

Hann segir að það hafi verið hreyfing á jarð­veginum í vetur og það átti að hefja vinnu í dag til að drena hlíðina. Rétt var byrjað að grafa í götuna en verkið ekki komið lengra en það.

„En þau voru ekki byrjuð þegar skriðan féll og þetta kom öllum að ó­vörum. Það er 20 stiga hiti og ekki búið að vera rigning.“

Hann segir að sem betur fer hafi enginn verið heima í húsunum sem aur­skriðan féll á milli.

„Það er trampólín þarna illa farið í garðinum á milli, allt í drullu, og maður hugsar það ekki til enda hversu illa hefði getað farið ef ein­hver hefði verið heima og börn úti að leika. Þetta slapp betur en hefði getað orðið.“