Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út tvisvar til að aðstoða illa búið göngufólk sem hafði misstigið sig á gossvæðinu á Reykjanesi. Verið er að rýma svæðið eftir að lögreglustjórinn ákvað í samráði við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra að loka aðgangi af öryggisástæðum.

Hraun rennur yfir gönguleið við gosstöðvarnar og myndar nýja æð ofan í Nátthaga. Tvær eða þrjár myndarlegar hrauntungur fylla nú dalinn en þaðan mun leið hraunsins svo liggja að Suðurstrandarvegi, en það gæti tekið nokkrar vikur jafnvel mánuði.

Steinar Þór Kristinsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík og svæðis­stjóri al­manna­varna í Geldinga­dölum, er á svæðinu og fylgist með þróun mála. Fimmtán björgunarsveitarmenn eru á vaktinni að fylgja fólki að Suðurstrandarvegi og beina fólki sem hyggst ganga að gosinu til baka.

Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið í morgun til að ganga úr skugga um að enginn væri í sjálfheldu hinum megin við hraunána sem rann yfir gönguleiðina. Enginn virtist hafa verið hinum megin að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

„Staðan er góð. Við erum með hópa þarna uppi að fylgjast með þróuninni og meta stöðuna. Örfáir eru eftir þarna uppi og við erum búin að koma fyrir lokunarpóstum við bílastæðið,“ segir Steinar Þór í samtali við Fréttablaðið.

Mynd úr þyrluflugi Landhelgisgæslunnar í morgun.
Mynd: Landhelgisgæslan

Aðspurður um aðstoðarbeiðnir segir hann slysin ekki hafa verið alvarleg.

„Fólk var að misstíga sig. Það getur gerst um leið og maður fer út fyrir hina ruddu slóð ef menn eru illa búnir. Túristarnir virðast vera frekar illa búnir miðað við Íslendingana,“ útskýrir Steinar Þór.

Hann segir tvær til þrjár hrauntungur nú renna ofan í Nátthaga og mögulegt er að ein þeirra fari vestur í Nátthagakrika, sem myndi loka á milli gönguleiða A og B, þar sem brekkan byrjar.