Lög­reglu­stjórinn á Austur­landi hefur á­kveðið, í sam­ráði við Veður­stofu og ríkis­lög­reglu­stjóra, að rýma á­kveðin svæði á Seyðis­firði þar sem rigningu er spáð á svæðinu. Að því er kemur fram í til­kynningu um málið verður rýmingu lokið í kvöld klukkan 22.

Hættu­stig al­manna­varna er enn í gildi á Seyðis­firði en á­kveðið var að rýma á­kveðið svæði í var­úðar­skyni þar sem mikilli úr­komu er spáð fram til morguns. Draga á síðan úr úr­komu eftir klukkan 18 á morgun en í­búðar­hús á svæðinu verða rýmd fram á sunnu­dag.

„Vel er fylgst með öllum hreyfingum í hlíðinni ofan Seyðis­fjarðar,“ segir í til­kynningu al­manna­varna. Stöðug­leiki hafi aukist á svæðinu en enn væri ó­vissa um stöðug­leika hlíðanna í Botna­brún. Eftir því sem meiri reynsla fæst á stöðug­leika hlíðarinnar verður rýming lögð til í á­kveðnum skrefum.

Stöðug­leiki hefur aukist en með vísan til úr­komu­spár frá mið­nætti til klukkan 18 á morgun hefur á­kvörðun verið tekin um að í­búðar­hús í jaðri byggðar verði rýmd í kvöld og fram á sunnu­dag. Staðan verður síðan endur­metin á sunnu­dags­morgun.

Hér fyrir neðan má sjá þau hús sem eru á rýmingar­svæðinu og fyrir­komu­lag rýmingar.

Um eftir­talin hús er að ræða:

  • Öll hús við Botna­hlíð
  • Múla­vegur 37
  • Baugs­vegur 5
  • Austur­vegur 36, 38a, 40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56

Fyrir­komu­lag við rýmingu:

  • Mæting í fjölda­hjálpar­stöðina (þjónustu­mið­stöð) í Herðu­breið ef hús­næði vantar, akstur til Egils­staða eða aðra að­stoð
  • Hringið í 1717 ef þið hafið annan sama­stað og ætlið að fara sjálf út úr bænum eða í annað hús­næði á Seyðis­firði

Nauð­syn­legt er að allir skrái sig um leið og hús­næði er rýmt.

Fjölda­hjálpar­stöðin verður opin yfir helgina eins og þörf þykir. Þjónustu­mið­stöð al­manna­varna verður á­fram opin í Herðu­breið á Seyðis­firði í næstu viku en einnig er hægt að senda inn fyrir­spurnir á net­fangið sey@log­reglan.is og hringja í 839 9931 utan opnunar­tíma.