Mikil loftmengun er á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum í rauntíma á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Þar má sjá að bæði gildi svifryks og niturdíoxíð, sem er gastegund, er verulega há í dag. Varað var við slæmum loftgæðum næstu daga í gær. Reykjavíkurborg, í samstarfi við Vegagerðina, hyggst rykbinda helstu stofnbrautir. 

Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælingum má sjá að gildi svifryks og niturdíoxíð hafa fallið lítillega niður á milli klukkan níu og tíu, en eru enn há og merkt appelsínugul, fyrir slæm, eða rauð, fyrir mjög slæm loftgæði.

Við Fossaleyni/Víkurveg voru gildi 127 klukkan níu í morgun, en voru klukkan tíu orðin 80 míkrógrömm á rúmmetra og klukkan ellefu um 54. Við Grensásveg voru þau 71 klukkan níu, en 67 klukkan tíu. Klukkan ellefu mældust þau síðan 123 og eru því mjög slæm. Þar mældist þó niturdíoxíð í 161,9 míkrógrömmum á rúmmetra klukkan níu, sem telst slæmt. Klukkan ellefu var það komið niður í 118 sem telst miðlungs. 

„Þetta dettur niður þegar stærstu umferðartopparnir eru búnir. Þetta eru þessar veðuraðstæður. Þetta er eins og við bjuggumst við. Göturnar eru þurrar og þá þyrlast rykið upp. En við erum að fara af stað í hádeginu með rykbindingu á helstu stofnbrautum og götum í þéttbýli í Reykjavík,“ segir Svava S. Steinarsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í samtali við Fréttablaðið í dag.

Nauðsynleg lýðheilsunnar vegna

Hún segir að verkefnið sé samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Við rykbindingu er ákveðinni tegund af saltpækli sprautað á göturnar sem bindur rykið og dregur úr því sem þyrlast upp. Hún segir að á meðan úðun stendur geti það valdið óþægindum í umferðinni.

„En þetta er mjög nauðsynlegt lýðheilsunnar vegna, að draga úr svifrykinu. Við að sjálfsögðu hvetjum alla til að reyna að draga úr akstri eins og hægt er og nýta sér almenningssamgöngur eða aðra ferðamáta,“ segir Svava.

Hún bætir við að þótt það standi til að rykbinda og sópa þá sé ávallt best að draga úr mengun vegna umferðar með því að minnka umferð.

„Þegar um er að ræða mengun sem er eingöngu tengd umferðinni þá er afskaplega lítið annað að gera til að draga úr henni en að reyna að fá fólk til að minnka notkunina. Það er ekki eingöngu svifryk sem kemur frá bílunum, það er líka köfnunarefnið díoxíð, sem er gas sem kemur frá útblæstri bifreiðanna, sem er líka mjög slæmt fyrir heilsu mannanna,“ segir Svava.

Hún segir að loftmengunin verði ekki minnkuð með því að aðeins sópa.

„Fólk er svolítið fast á því að það eigi að sópa og þá sé málið leyst. En þú sópar ekki burtu gasinu. Sópun ein og sér sem aðgerð dugir heldur ekki til að koma í veg fyrir svifrykið. Það fer í kanta og þyrlast upp þaðan,“ segir Svava.

Svava segir að í veðri eins og nú, þegar frost er, þá virki sópabúnaður einnig illa. Ekki sé hægt að sprauta vatni á göturnar því þá geti skapast slysahætta.

„Það er því ekki alltaf hægt að grípa til þess ráðs að fara í götuþrif við þessar aðstæður. Þetta eru oft þessar froststillur þegar svifrykið er sem mest,“ segir Svava.

Hægt er að sjá hér hvaða götur verða rykbundnar.

Fréttin hefur verið leiðrétt klukkan 13:06. Fyrst stóð að búið væri að sópa einu sinni í dag. Það er ekki rétt. 

Hvetja almenning til að draga úr notkun einkabílsins

Heilbrigðiseftirlitið varaði við því í gær að styrkur svifryks í lofti yrði hár í vikunni vegna veðuraðstæðna. Vindur er hægur, það er kalt, göturnar þurrar og ekki líkur á úrkomu í vikunni.

Almenningur er hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins við þessar aðstæður, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þá eru þeau

Þá eru þau börn og þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum og börn hvött til að forðast útivist við stórar umferðargötur.

Sjá einnig: Hvetja al­menning til að skilja bílinn eftir heima

Á samfélagsmiðlum deila margir myndum af sér undir myllumerkinu #gráirdagar í strætó. Þar hvetur það aðra til að nýta sér aðra ferðamáta en einkabílinn. Hér að neðan má sjá nokkrar færslur.