Forsvarsfólks þriggja stærstu kvikmyndagerðarfyrirtækja landsins fagna yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar um hækkun á endurgreiðslu af kostnaði við kvikmyndagerð á Íslandi úr 25 prósent í 35 prósent.
„Slíkt myndi jafna samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar og gera okkur kleift að byggja upp aðstöðu og innviði á við það sem best gerist,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækjunum þremur.
Í forsvari fyrir RVK Studios er Baltasar Kormákur, í forsvari fyrir Pegasus eru þau Lilja Ósk Snorradóttir, Erlendur Cassata og Snorri Þórisson og fyrir True North er Leifur Dagfinnsson.
Í yfirlýsingunni kemur fram að kvikmyndaklasinn skapi nú þegar um fjögur þúsund bein og afleidd störf hérlendis og að klasinn hafi alla burði til að vaxa og dafna.
„Þennan vaxtarsprota okkar kvikmyndagerðarfólks þarf að rækta, styrkja og styðja við í samræmi við nýsamþykkta kvikmyndastefnu sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett,“ segir í yfirlýsingunni sem má sjá í heild sinni hér að neðan.
Við styðjum Sigurð Inga til góðra verka
Við undirrituð, sem erum í forsvari fyrir þrjú af stærstu kvikmyndagerðarfyrirtækjum landsins, lýsum hér vilja okkar til samstarfs um áframhaldandi uppbyggingu kvikmyndagerðar sem arðskapandi þekkingarstarfsemi á Íslandi.
Kvikmyndaklasinn skapar nú þegar hátt í fjögur þúsund bein og afleidd störf hérlendis og hefur alla burði til að vaxa og dafna - íslensku atvinnulífi, samfélagi og menningu til heilla. Þennan vaxtarsprota okkar kvikmyndagerðarfólks þarf að rækta, styrkja og styðja við í samræmi við nýsamþykkta kvikmyndastefnu sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett.
Við fögnum yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar um hækkun á endurgreiðslu af kostnaði við kvikmyndagerð á Íslandi úr 25% í 35%. Slíkt myndi jafna samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar og gera okkur kleift að byggja upp aðstöðu og innviði á við það sem best gerist.
Við styðjum Sigurð Inga til góðra verka!
Fh. RVK Studios
Baltasar Kormákur
Fh. Pegasus
Lilja Ósk Snorradóttir
Erlendur Cassata
Snorri Þórisson
Fh. Truenorth
Leifur Dagfinnsson