Fyrsta af fjórum vinnu­stöðvunum fé­lags­manna Blaða­manna­fé­lags Ís­lands átti sér stað í dag milli klukkan 10 og 14 en vinnu­stöðvunin náði til ljós­myndara, mynda­töku­manna og frétta­manna á vef­miðlum Frétta­blaðsins, Morgun­blaðsins, Sýnar og RÚV.

Verk­falls­verðir fylgdust með því að ekkert efni væri sett á vef­miðla þeirra fjöl­miðla sem stóðu í verk­fallinu í þessa fjóra tíma og að ekki yrði gengið í störf ljós­myndara og mynda­töku­manna með ó­lög­mætum hætti.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins sást töku­maður RÚV á skrif­stofu Sýnar á meðan verk­fallinu stóð en hann var stöðvaður af starfs­manni á rit­stjórn Sýnar og gat ekki ekki tekið upp fyrr en klukkan 14:00. „Þessi til­tekni maður sem var við störf er ekki í blaða­manna­fé­laginu en er hins vegar verk­taki,“ segir Broddi Brodda­son, vara­frétta­stjóri RÚV, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Um það hvort eða hvernig eigi að túlka eitt­hvert reglu­verk í fram­kvæmd verk­falla, þá verðum við bara að vísa hér á Sam­tök at­vinnu­lífsins sem fara form­lega með það hvernig tekið er á svona málum,“ segir Broddi.

Þá birtust ýmsar fréttir á mbl.is á meðan verk­fallinu stóð en að sögn að­stoðar­frétta­stjóra mbl.is, Þor­steins Ás­gríms­sonar, gengu blaða­menn og frétta­stjórar út þegar verk­fallið hófst. Hann segir að fréttirnar hafi ekki verið skrifaðar af þeim blaða­mönnum.

Þor­steinn gat ekki svarað því hvort um­ræddar fréttir hefðu verið tíma­stilltar eða hvort yfir­menn hefðu gengið í störf frétta­manna og vísaði á Harald Johannes­sen, rit­stjóra Morgun­blaðsins, en ekki náðist í Harald þrátt fyrir til­raunir.

Að sögn Hjálmars Jónssonar, formanni Blaðafélags Íslands mun félagsdómur úrskurða hvort um hafi verið að ræða verkfallsbrot fyrir næsta verkfall sem fer fram næsta föstudag.