Málefni RÚV og einkarekinna fjölmiðla eru ekki meðal þeirra mála sem formenn stjórnarflokkanna eru að ræða í viðræðum um áframhaldandi samstarf.

Viðræðurnar hafa hingað til að mestu varðað mál sem sigldu í strand á síðasta kjörtímabili, önnur stefnumál flokkanna sem stangast á og helstu samfélagslegu verkefnin fram undan. Málefni fjölmiðla voru sannarlega meðal umdeildra mála í stjórninni á síðasta kjörtímabili, en frumvarp menntamálaráðherra um styrki til einkarekinna miðla var stöðugt bitbein, ekki síst milli ráðherrans, Lilju Alfreðsdóttur, og einstakra stjórnarþingmanna.

Óli Björn Kára­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, sagði í að­sendri grein í Morgun­blaðinu að það mætti ekki gleyma fjölmiðlum í viðræðunum. Sagði hann að styrkja þurfi sjálf­stæða fjöl­miðlun á Ís­landi. Til þess þurfi að stíga tvö skref, að taka Ríkis­út­varpið af aug­lýsinga­markaði og styrkja rekstrar­um­hverfi sjálf­stæðra fjöl­miðla með skatta­lækkunum.

„Nei, þessi mál hafa ekki verið rædd í viðræðum okkar þriggja,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, aðspurð um fjölmiðlamálin.

Katrín sagði formennina ekki hafa fundað í gær vegna Artic Circle, en þau muni halda áfram í dag.