Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir áhugavert hve miklu púðri fjölmiðlar hafi varið í umfjöllun um 100 milljóna króna ríkisstyrk til einkamiðla á sama tíma og þögn ríki um 335 milljóna króna aukafjárframlag til Ríkisútvarpsins. Hann vill að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði.

„Ég held að fyrirferð RÚV sé hluti skýringarinnar, að þessi umræða komi upp, Ríkisútvarpið er verulega fyrirferðarmikið og hefur áhrif á getu hinna miðlanna til að starfa. Ríkisútvarpið varpar stórum skugga yfir allan fjölmiðlamarkaðinn, það er erfitt að þrífast í skugga Ríkisútvarpsins í slagnum um auglýsingafé,“ segir Bjarni.

Fjármálaráðherra segir að fleira hafi áhrif á rekstrarvanda einkarekinna fjölmiðla, sem dæmi hve stór hluti af auglýsingafjárkökunni fari í samfélagsmiðla.

„En mér finnst dæmigert í umræðunni að núna skulum við eyða svo miklu púðri í að ræða þá hugmynd á Alþingi að 100 milljónir renni til viðbótar einkarekinna fjölmiðla en enginn ræði að það fara 335 milljónir til viðbótar til Ríkisútvarpsins beint úr vasa skattgreiðenda,“ segir Bjarni.

Þar vísar Bjarni til hækkunar á útvarpsgjaldinu sem skilar sér beint í auknar tekjur RÚV. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu um að fallið yrði frá hækkun gjaldsins sem hefði komið í veg fyrir þessa aukningu framlaga. Sú tillaga var felld.

Spurður hvort Bjarni telji að taka eigi RÚV af auglýsingamarkaði svarar hann:

„Já, mér fyndist það mjög æskilegt að kippa RÚV út af auglýsingamarkaði, vandinn pólitískt er hvað ætti að gera í staðinn.“

Bjarni segir ólíkar skoðanir á Alþingi um framtíð og fjármögnun RÚV.

„Sumum finnst að það ætti að koma beint úr ríkissjóði það sem tapast með auglýsingatekjum, meðan aðrir segja að hækka eigi lögboðið gjald. Þá myndu heimili og lögaðilar þurfa að greiða hærra gjald vegna tapaðra tekna, en svo er það þriðji hópurinn sem segir að draga ætti úr umfanginu. Þessi sjónarmið hefur ekki náðst að sameina,“ segir Bjarni.

Fjármálaráðherra segir einhug í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að hækka ekki útvarpsgjaldið.

„Okkar skoðun er að það eigi að draga úr umfanginu og það sé vel hægt, samhliða því að RÚV dragi sig út af auglýsingamarkaði. Nú gefst líka tækifæri til að fara dýpra í grundvallarspurningar um hlutverk Ríkisútvarpsins, það held ég að yrði holl umræða,“ segir Bjarni.

Einar Logi Vignisson, auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins, segir að RÚV hafi ekki skoðun á því hvort það sé á auglýsingamarkaði eða ekki, lög í landinu segi til um það.

Auglýsingastjórinn segir að undanfarin ár hafi þessi mál verið margrædd. „Þetta er ekki bara mál Ríkisútvarpsins sjálfs heldur snertir þetta hagsmuni fjölda fyrirtækja, fjölda auglýsenda á landinu sem hafa á þessu miklar skoðanir,“ segir Einar Logi.

Auglýsingatekjur RÚV losuðu um tvo milljarða í fyrra sem er nálægt þriðjungi af rekstrarfé.