Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur nú úrskurðað að Ríkisútvarpinu hafi verið heimilt að leyfa umsækjendum um starf útvarpsstjóra að njóta nafnleyndar. Í úrskurði upplýsinganefndar segir að þó það sé ljóst að RÚV falli undir upplýsingalög þá verði að líta til þess að í lögunum er að finna sérreglu um aðgang almennings að upplýsingum sem feli í sér undantekningu frá meginreglu. Reglan felur það í sér að almenningur á að jafnaði ekki rétt til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem heyra undir ákvæði laganna því þau séu ekki opinberir starfsmenn.

Í tilkynningu frá stjórn Ríkisútvarpsins kemur fram að ákvörðun þeirra um að birta ekki nöfnin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar á þeim forsendum að upplýsingalög skylduðu stofnunina til að birta nöfn umsækjenda.

„Nú hefur verið staðfest að svo er ekki, þar sem starfsfólk RÚV er ekki opinberir starfsmenn,“ segir í tilkynningu.

Þar segir enn fremur að ákvörðun stjórnarinnar að birta ekki nöfnin hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli og með hagsmuni almennings í huga.

„Trúnaður um nöfn umsækjenda er að mati ráðgjafa í ráðningamálum mikilvægur til að hámarka gæði umsókna. Slíkur trúnaður dregur ekki úr gagnsæi umsókna og ráðningarferlisins, en eykur þvert á móti trúverðugleika þess gagnvart umsækjendum sem þurfa ekki að taka þá áhættu að starfsumsókn valdi þeim tjóni á öðrum vettvangi,“ segir að lokum.