RÚV braut ekki siða­reglur Blaða­manna­fé­lags Ís­lands vegna orða­lags í frétt Brynjólfs Þórs Guð­munds­sonar sem birt var á vef RÚV, ruv.is, þann 9. maí þar sem sagði að þrír frétta­menn höfðu fjallað um „sam­skipti svo­kallaðrar skæru­liða­deildar Sam­herja, sem hafði sam­ræmt at­lögu að frétta­mönnum sem fjölluðu um fram­göngu Sam­herja í Namibíu og á­sakanir um lög­brot fyrir­tækisins og stjórn­enda þess.“

Í kærunni, sem lögð var fram af Sam­herja kom fram að Sam­herji hafi talið máls­greinina stangast á við þriðju grein siða­reglna Blaða­manna­fé­lags Ís­lands þar sem segir að blaða­maður eigi að vanda upp­lýsinga­öflun sína, úr­vinnslu og fram­setningu svo kostur er.

„Hann forðast allt, sem valdið getur sak­lausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, ó­þarfa sárs­auka eða van­virðu,“ segir enn fremur í greininni en fréttin sem máls­greinin til­heyrir fjallaði um niður­stöðu Lands­réttar í máli frétta­mannanna sem um ræðir og var for­saga málsins rakin í stuttu máli og, að því er fram kemur í til­kynningu á vef Blaða­manna­fé­lagsins, notað orða­lag sem marg­oft hafi verið notað í opin­berri um­ræðu.

„Fram­komin gögn styðja þann gildis­dóm sem fram kemur í þeirri setningu sem nefnd er í kærunni. Ekkert kallar á að leitað sé til kæranda vegna þessarar fréttar eða að hana megi ekki segja nema öll gögn málsins séu fyrir­liggjandi. Siða­nefnd fellst ekki á að kærð um­mæli brjóti gegn þriðju grein siða­reglna Blaða­manna­fé­lags Ís­lands,“ segir í úr­skurði Siða­nefndar Blaða­manna­fé­lagsins sem var í dag birtur á vef fé­lagsins.