RÚV braut ekki siðareglur Blaðamannafélags Íslands vegna orðalags í frétt Brynjólfs Þórs Guðmundssonar sem birt var á vef RÚV, ruv.is, þann 9. maí þar sem sagði að þrír fréttamenn höfðu fjallað um „samskipti svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja, sem hafði samræmt atlögu að fréttamönnum sem fjölluðu um framgöngu Samherja í Namibíu og ásakanir um lögbrot fyrirtækisins og stjórnenda þess.“
Í kærunni, sem lögð var fram af Samherja kom fram að Samherji hafi talið málsgreinina stangast á við þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands þar sem segir að blaðamaður eigi að vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo kostur er.
„Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu,“ segir enn fremur í greininni en fréttin sem málsgreinin tilheyrir fjallaði um niðurstöðu Landsréttar í máli fréttamannanna sem um ræðir og var forsaga málsins rakin í stuttu máli og, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Blaðamannafélagsins, notað orðalag sem margoft hafi verið notað í opinberri umræðu.
„Framkomin gögn styðja þann gildisdóm sem fram kemur í þeirri setningu sem nefnd er í kærunni. Ekkert kallar á að leitað sé til kæranda vegna þessarar fréttar eða að hana megi ekki segja nema öll gögn málsins séu fyrirliggjandi. Siðanefnd fellst ekki á að kærð ummæli brjóti gegn þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands,“ segir í úrskurði Siðanefndar Blaðamannafélagsins sem var í dag birtur á vef félagsins.