Sam­herji sendi stjórn RÚV bréf í gær þar sem farið var fram á af­­sökunar­beiðni vegna full­yrðinga um að fyrir­­­tækið hefði mútað namibískum em­bættis­­mönnum. Þar segist fyrir­­­tækið í­huga mál­­sókn vegna frétta­flutningsins. Frétta­stofa RÚV hefur nú beðist vel­virðingar á stað­hæfingunni. Þetta kemur fram á vef Ríkis­út­varpsins. Fréttin fjallaði um þróunar­að­­stoð og var þar sagt að Namibíu­­menn hefðu ekki notið þeirrar þróunar­að­­stoðar sem Ís­­lendingar hefðu veitt þeim vegna fram­­gangs Sam­herja í landinu. Á vef Frétta­blaðsins í dag kom fram að lög­­fræðingur Sam­herja sendi RÚV bréf um málið í gær þar sem farið var fram á að stjórn RÚV birti án tafar leið­réttingu á um­­­mælum frétta­­mannsins og biðjist undan­­dráttar­­laust af­­sökunar.

Í fréttinni segir frétta­­maðurinn „Tókst Sam­herja hins vegar að afla sér kvóta í landinu með því að múta em­bættis­­mönnum, eins og fjallað var um í Kveik í vetur, heima­­menn nutu því ekki að­­stoðarinnar sem veitt var,“ um þróunar­að­­stoð Ís­­lendinga til Namibíu­manna.

Þá sagði í yfir­lýsingu Sam­herja að full­yrðingin eigi sér enga stoð í raun­veru­­leikanum og sé úr lausu lofti gripin.

Á vef RÚV segir að frétta­stofa telji rétt að leið­rétta full­yrðinguna. Þar kemur einnig fram að starfs­menn Sam­herja hafi ekki verið sak­felldir eða á­kærðir fyrir slík brot en málið sé enn í rann­sókn. Þá er tekið fram að nokkrir namibískir em­bættis­menn hafi verið á­kærðir fyrir að þiggja mútur í tengslum við kvóta­út­hlutanir sem tengjast Sam­herja og eru þau mál nú rekin fyrir dóm­stólum í Namibíu. Í lok fréttar RÚV segir:

„Frétta­stofan biðst vel­virðingar á þeirri stað­hæfingu sem fram kom í fréttinni á fimmtu­dag en í­trekar að allt sem kom fram í þætti Kveiks um Sam­herja­málið 12. nóvember 2019 og í öðrum fréttum um málið, stendur.“