Skortur á rútum mun að óbreyttu koma í veg fyrir að allir þeir erlendu ferðalangar sem vilja bóka ferðir innanlands fái vilja sínum framgengt í sumar.

Töluverð brögð voru að því á Covid-tímanum þegar allt lá niðri að fyrirtæki seldu stóra bíla úr landi til að halda velli, ekki síst rútur. Nú þegar ferðaþjónustan tekur hraðar við sér en nokkur sá fyrir horfir í skort á rútubílum.

Guðmundur Jónasson ehf. er eitt rótgrónasta rútufyrirtæki landsins. Stefán Gunnarsson forstjóri segir brjálað að gera. Ekki bara í flutningum heldur sé uppselt á hótelum víða um land út sumarið.

„Við gengum í gegnum Covid, svo urðu launahækkanir og nú kemur mikil hækkun á aðföngum, ekki síst eldsneyti. Þetta hafa verið brekkur en sem betur fer er ferðaþjónustan að taka ótrúlega vel við sér,“ segir Stefán.

Reyndar svo vel að óvíst er hvort hægt verður að inna af hendi umbeðna þjónustu af hálfu erlendra viðskiptavina.

„Margar ferðaskrifstofur sem sinna skemmtiferðaskipum eru með hjartað í brókunum yfir að fá ekki nógu marga rútubíla,“ segir Stefán.

Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir um umskiptin: „Svona er bransinn. Fyrst héldu menn að sér höndum en nú verða vaxtarverkir þegar stíflan losnar.“

Stefán Gunnarsson forstjóri Guðmundar Jónassonar ehf.