„Hviðurnar eru stórhættulegar. Rútur ættu alls ekki að vera á ferðinni,“ segir Eva Dögg Þorsteinsdóttir, húsráðandi í Garðakoti, skammt frá þar sem rúta valt í morgun.

Smárútan sem valt út af Suðurlandsvegi í morgun snerist í heilan hring áður en hún lenti á hjólunum að sögn Þorsteins Gunnarssonar, bónda á Vatnsskarðshólum.

Slysið varð rétt vestan við bæinn Skeiðflöt og eru nú tveir eða þrír sjúkrabílar á vettvangi ásamt lögreglu.

Átta manns, farþegar og ökumaður, hafa nú verið fluttir í skjól í Ketilstaðaskóla þar sem Hótel Volcano er til húsa. Þrjú eru slösuð en þó ekki alvarlega samkvæmt viðbragðsaðilum. Lögreglan á Suðurlandi segir þrjá metna „gulir“ á skala sem notaður sem er notaður til að greina slasaða en hinir fimm eru „grænir“.

Aðstæður eru erfiðar á Suðurlandsvegi en að sögn bænda er alls ekkert ferðaveður. Enginn skólaakstur var í sveitinni í dag. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að Suðurlandsvegi milli Selfoss og Víkur hefur nú verið lokað tímabundið vegna þess hversu vont veður er á svæðinu.

Þorsteinn segir rútuna hafa fokið heilan hring en lent á hjólunum. „Hér er mjög vont veður og alls ekkert ferðaveður þótt það séu fullt af bílum á vegunum,“ segir Þorsteinn.

Engin hálka er á vegunum en líkt og Veðurstofa Íslands greindi frá í veðurfréttunum eru snarpar vindhviður.