Þyrla Landhelgisgæslunnar, sjúkraflutningafólk og björgunarsveitir á öllu Suðurlandi voru upp úr klukkan 15 kölluð út vegna rútuslyss á Suðurlandsvegi við Hof í Öræfum. 32 voru um borð í rútunni þegar hún valt út fyrir veg auk ökumanns.

Í skeyti frá fjarskiptamiðstöð embættis ríkislögreglustjóra segir að búið sé að virkja samhæfingarstöð í Skógarhlíð. Ekki sé ljóst með umfang slyssins og meiðsli fólks en eitthvað er um beinbrot og skrámur.

Rútan valt út af veginum skammt frá því sem bláa stikan á kortinu er merkt.
Skjáskot/map.is

Búið er að senda rútu á vettvang sem ætlað er að flytja þá sem heilir eru. Rútan er sögð hafa farið út af veginum andspænis akstursstefnu rútunnar. Þar hafi hún endað á hliðinni í mýrardrullu.

Unnið er eftir hópslysaáætlun en Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Fréttablaðið að fjöldahjálparstöð hafi verið komið upp á Kirkjubæjarklaustri skömmu eftir að tilkynnt var um slysið. Aðhlynning vegna hinna slösuðu fer nú fram þessa stundina og er mikið viðbragð á staðnum.

Gera má ráð fyrir að Suðurlandsvegur verði lokaður þarna á og við vettvang á meðan á þarf að halda vegna vinnu viðbragðsaðila á vettvangi. Björgunarsveitir allt frá Reykjavík og að Höfn í Hornafirði taka þátt í aðgerðunum.

Uppfært kl. 16:10: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að 53 hafi verið um borð. Það var samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra. Lögreglan á Suðurlandi hefur hins vegar gefið út að 32 hafi verið um borð auk bílstjórans.

Fréttin hefur verið uppfærð.