Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynnir á Facebook síðu sinni að veginum um Kjalarnes hafi verið lokað vegna umferðarslyss.Vísir greinir frá því að um sé að ræða rútu með tíu til fimmtán manns, sem hafi lent utanvegar.

Í frétt Vísis segir að engin slys hafi orðið á fólki en opna eigi fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla á Kjalarnesi, til þess að taka við farþegum rútunnar. Samkvæmt heimildum Vísis er rútan nálægt því að detta á hliðina.

Vonskuveður gengur nú yfir landið og hefur vegum víða um land verið lokað. Til að mynda var Hellisheiði og Mosfellsheiði lokað í morgun og þá hefur vegunum um Kleifaheiði og Hálfdán á Vestfjörðum einnig verið lokað.

Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi um allt land í dag og búist er við að fleiri vegum, bæði á Norður- og Suðurlandi verði lokað þegar líður á daginn.