Bæði lögregla og sjúkraflutningamenn hafa verið kölluð út eftir að tvær rútur fóru út af á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi en þar er samkvæmt upplýsingum frá lögreglu afar slæm færð, lítið skyggni og mikill vindur. 

Í annarri rútunni voru um 30 farþegar og í hinni  um 10. Enginn var alvarlega slasaður en þrír með minniháttar áverka. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni verður fólkið flutt til aðhlynningar í Reuykjavík og verður því verki lokað innan skamms. 

Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Fréttablaðið í kvöld að aðstæður séu afar erfiðar á vettvangi, bæði sé blint vegna snjókomu auk þess sem mikil hálka er á veginum. 

„Það fóru tvær rútur út af og enginn slasaður er talið, ef eitthvað þá er það minniháttar. Það er verið að vinna að því að koma fólki í skjól vegna veðurs,“ segir Kristján. 

Vesturlandsvegur er lokaður á milli Esjumela og Hvalfjarðarganga. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni verður lokað þar til lægir. Talið er líklegt að það gerist um klukkan 21. Gul viðvörun er á suðvestur- og vesturlandi í kvöld og er spáð allt að 23 metrum á sekúndu þar sem hvassast er. 

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 19:32 og klukkan 19:52.