Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út um áttaleytið í morgun vegna rútu sem farið hafði út af þjóðveginum við Hafurshól undir Eyjafjöllum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá björgunarsveitum.

Rútan endaði út í á en fram kemur í tilkynningunni að ekkert ami að farþegunum. 23 farþegar voru í rútinni og eru viðbragðsaðilar nú á vettvangi.

Selflytja þarf farþegana með björgunarsveitarbílum úr rútunni. Verða þeir fluttir í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn hefur opnað í Heimalandi. Snarvitlaust veður er á svæðinu og fer vindur mest upp í fjörutíu metra á sekúndu í verstu hviðum.

Frétt uppfærð kl. 10:45:

Tekist hefur að koma öllum úr rútunni í fjöldahjálparstöð. Hópurinn er rólegur og yfirvegaður og engin slys urðu á fólki. Um var að ræða ferðafólk.