Rússneskur hermaður sem ákærður er fyrir stríðsglæpi hefur játað að hafa myrt óvopnaðan almennan borgara í bænum Chupakhivka í Úkraínu. Hann gæti átt fyrir sér lífstíðardóm í fangelsi. BBC greinir frá þessu.
Vadim Shishimarin, rússneski hermaðurinn er einungis 21 árs, hann játaði að hafa myrt 62 ára almennan borgara nokkrum dögum eftir að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst.
Saksóknarar í Úkraínu segja fleiri mál vera á borði þeirra, en fleiri mál sem gætu flokkast sem stríðsglæpir eru til skoðunar. Yfirvöld í Rússlandi hafa neitað því að hermenn þeirra hafi skotið almenna borgara.
Réttarhöldin eru fyrstu sinnar tegundar frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Réttarhöldin fara fram í Kænugarði.
Rússneski hermaðurinn á að hafa myrt manninn 28. febrúar, einungis fjórum dögum eftir innrásina. Maðurinn var að hjóla í bænum Chupakhivka sem er í héraðinu Sumíj í austanverðri Úkraínu þegar hann var myrtur.

Hermaðurinn labbaði inn í dómsalinn í morgun, hann leit út fyrir að vera stressaður og eyddi allri sinni orku í að hlusta á túlkinn sem honum var úthlutað. Nokkrum metrum frá sæti hermannsins situr ekkja mannsins sem lést.
Saksóknarar segja hermanninn hafa stjórnað herdeild skriðdreka þegar ráðist var skyndilega á hana. Hann og fjórir aðrir hermenn rændu bíl og keyrðu um borgina þegar þeir sáu manninn sem hjólaði sakleysislega.
Hermaðurinn vill meina að honum hafi verið skipað að myrða þá almennu borgara sem þeir rákust á, en Rússnesk yfirvöld segjast ekki hafa upplýsingar um málið.
Réttarhöldum hefur verið frestað fram á fimmtudag.