Rúss­neskur her­maður sem ákærður er fyrir stríðs­glæpi hefur játað að hafa myrt ó­vopnaðan al­mennan borgara í bænum Chupak­hivka í Úkraínu. Hann gæti átt fyrir sér lífs­tíðar­dóm í fangelsi. BBC greinir frá þessu.

Vadim Shishimarin, rúss­neski her­maðurinn er einungis 21 árs, hann játaði að hafa myrt 62 ára al­mennan borgara nokkrum dögum eftir að inn­rás Rússa inn í Úkraínu hófst.

Sak­sóknarar í Úkraínu segja fleiri mál vera á borði þeirra, en fleiri mál sem gætu flokkast sem stríðs­glæpir eru til skoðunar. Yfir­völd í Rúss­landi hafa neitað því að her­menn þeirra hafi skotið al­menna borgara.

Réttar­höldin eru fyrstu sinnar tegundar frá því að inn­rás Rússa í Úkraínu hófst. Réttar­höldin fara fram í Kænu­garði.

Rúss­neski her­maðurinn á að hafa myrt manninn 28. febrúar, einungis fjórum dögum eftir inn­rásina. Maðurinn var að hjóla í bænum Chupak­hivka sem er í héraðinu Sumíj í austan­verðri Úkraínu þegar hann var myrtur.

Þétt setið var í dómsalnum.
Fréttablaðið/EPA

Her­maðurinn labbaði inn í dóm­salinn í morgun, hann leit út fyrir að vera stressaður og eyddi allri sinni orku í að hlusta á túlkinn sem honum var út­hlutað. Nokkrum metrum frá sæti her­mannsins situr ekkja mannsins sem lést.

Sak­sóknarar segja her­manninn hafa stjórnað her­deild skrið­dreka þegar ráðist var skyndi­lega á hana. Hann og fjórir aðrir her­menn rændu bíl og keyrðu um borgina þegar þeir sáu manninn sem hjólaði sak­leysis­lega.

Her­maðurinn vill meina að honum hafi verið skipað að myrða þá al­mennu borgara sem þeir rákust á, en Rúss­nesk yfir­völd segjast ekki hafa upp­lýsingar um málið.

Réttar­höldum hefur verið frestað fram á fimmtu­dag.