„Þing­menn eru ekki undan­skildir,“ segir Vyacheslav Volodin, for­seti neðri deildar rúss­neska þingsins, vegna her­kvaðningar sem Vla­dimír Pútín greindi frá í gær yfir vegna inn­rásarinnar í Úkraínu.

Þetta segir Volodin, sem er náinn banda­maður Pútíns, á Telegram-rás sinni. „Þeir þing­menn sem upp­fylla skil­yrði her­kvaðningar eiga að hjálpa til með þátt­töku sinni í hinni sér­stöku hernaðar­að­gerð í Úkraínu“. Her­kvaðningin ætti einungis við þá sem væru í vara­liði hersins og hefðu áður undir­gengist her­þjálfun. Volodin hrósaði þeim þing­mönnum sem væru nú þegar staddir á Donbas-svæðinu í austur­hluta Úkraínu.

Hann segir að spurningar hefðu vaknað meðal þegna landsins eftir til­kynningu Pútíns. Um­mæli þing­for­setans eru talin vera svar við á­sökunum margra al­mennra borgara um að her­kvaðningin næði ekki til efri laga rúss­nesks sam­fé­lags. Einn þing­maður hafði áður sagt að hans væri þörf innan­lands og hann gæti því ekki lagt hernum lið.