Undan­farna daga hafa þúsundir rúss­neskra karl­manna yfir­gefið heima­land sitt og farið til ríkja á borð við Georgíu, Armeníu og Kasakstans. Straumurinn tók að aukast mjög eftir á­varp Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta um her­kvaðningu allt að 300 þúsund manna vegna stríðsins í Úkraínu.

CNN ræddi við nokkra rúss­neska karl­menn sem yfir­gefið hafa landið á síðustu dögum og freistaði þess að fá svör við því hvaða á­stæður liggja að baki, til dæmis hvort þeir hafi á­hyggjur af því að vera kallaðir fyrir­vara­laust í herinn.

Enginn veit hvað gerist næst

Einn þessara manna sem CNN ræddi við heitir Denis og var hann við landa­mæri Rúss­lands og Georgíu þegar rætt var við hann. Hann hafði verið á ferða­lagi í sex daga og beið í langri röð eftir því að komast yfir landa­mærin til Georgíu, en Rússar þurfa ekki vega­bréfs­á­ritun til að komast þangað.

„Ég er þreyttur. Það er eina til­finningin sem ég finn núna,“ sagði Denis sem er 27 ára. Hann segist hafa á­kveðið að fara vegna ó­vissunnar í Rúss­landi í kjöl­far her­kvaðningar Pútíns. Áður hafi Pútín full­yrt að að­eins reyndustu her­menn landsins myndu berjast í Úkraínu en nú eigi aðrir, ein­staklingar með litla þjálfun eða reynslu af hernaði, hættu á að vera kallaðir í herinn.

Þó að Denis falli ekki undir skil­greiningu Pútíns um þá sem verða kallaðir í herinn segist Denis óttast að það geti breyst. „Hvernig veit ég hvað gerist eftir þrjú ár? Hversu langan tíma mun þetta taka. Um það ríkir ó­vissa og það veit enginn hvað gerist næst,“ segir hann.

Læknar og verka­menn

Í um­fjöllun CNN kemur fram að í hópi þeirra sem farið hafa yfir landa­mærin séu kennarar, læknar, leigu­bíl­stjórar og verka­menn – fólk úr öllum hópum með alls­konar bak­grunn.

„Ég held að um helmingur Rússa líti á að inn­rásin hafi verið röng á­kvörðun.“

Annar maður sem CNN ræddi við tók í svipaðan streng og Denis, en hann hafði lagt að baki 20 kíló­metra fót­gangandi að landa­mærum Georgíu. „Þessi her­kvaðning á ekki við um mig í dag, en hver veit hvað gerist á morgun,“ spurði hann. Hann vildi ekki koma fram undir nafni því hann kveðst óttast yfir­völd í Moskvu.

Þora ekki mót­mæla

Annar Rússi sem CNN ræddi við, hinn 28 ára Geor­ge Vat­sa­dze, sagðist ekki vilja fara til Úkraínu því þar á hann ömmu og fleiri skyld­menni. Hann getur ekki hugsað sér að fara í stríð gegn þeim. Geor­ge fór til Georgíu með bróður sínum og með í för var hundurinn hans og fatnaður í poka.

Geor­ge kveðst á­nægður að hafa komist til Georgíu en á sama tíma svekktur yfir því að hafa þurft að yfir­gefa heima­land sitt.

„Ég held að um helmingur Rússa líti á að inn­rásin hafi verið röng á­kvörðun. Flestir geta samt ekki mót­mælt henni því það er hættu­legt. Núna, með því að segja þetta, er ég að setja sjálfan mig í hættu.“

Langar bílaraðir hafa myndast við landamæri Rússlands og Georgíu.
Mynd/EPA