Rann­sóknar­stofur í Bret­landi, Banda­ríkjanna og Kanada urðu á dögunum fyrir barðinu á ríkis­styrktum rúss­neskum tölvu­þrjótum sam­kvæmt full­trúa öryggis­mála í Bret­landi. Um er að ræða hóp hakkara sem gengur undir nafninu APT29. Talið er nærri víst að téður hópur sé hluti af leyni­þjónustu Rússa.

Vildu komast yfir bólu­efni

Sam­kvæmt net­öryggis­stofnun Bret­lands reyndu tölvu­þrjótarnir að stela upp­lýsingum frá lyfja­fyrir­tækjum og rann­sak­endum sem vinna að gerð bólu­efnis gegn Co­vid-19 veirunni.

Ekki kom fram hvort á­rásir hakkaranna hafi borið árangur eða hvort þeim hafi tekist að stela gögnum sem flokkast sem trúnaðar­mál. Það var þó greint frá því að rann­sóknirnar sem sneru að bólu­efni gegn Co­vid hafi ekki verið stofnað í hættu vegna á­rásarinnar.

Benda á Rúss­land

Fram kemur á vef Guar­dian að sjald­gæft sé að bresk yfir­völd lýsi því yfir að annað land standi að baki sam­stilltum net­á­rásum. Gert er ráð fyrir að Banda­ríkin og Kanada muni bráð­lega gefa út sína eigin yfir­lýsingu um málið.

ATP29 hópurinn hefur verið virkur í mörg ár og er einnig þekkt innan hakkara­sam­fé­lagsins sem „Her­togarnir“ eða „Cozy Bear.“ Hópurinn notast við fjöl­breytta tækni til að koma höndunum á trúnaðar­upp­lýsingar og hefur einnig reynt að brjótast inn í kerfi ríkis­stjórna, orku­geirans og ráð­gjafa­fyrir­tækja.