Úkraínumenn halda áfram sókn sinni í austurhluta Úkraínu á svæðum sem Vladímír Pútín Rússlands forseti innlimaði við hátíðlega athöfn síðastliðinn föstudag. Úkraínskir hermenn stefna nú að borginni Kerson.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands staðfesti í dag að talsvert landsvæði hefði tapast í Kerson-héraði í Úkraínu þegar gefnar voru út hernaðarlegar upplýsingar sem sýndu yfirráðasvæði Rússa. Talsverð breyting hafði orðið á yfirráðasvæðum þeirra frá því á mánudaginn.

Það voru héröðin Do­­­netsk, Lúhansk, Saporí­s­jía og Ker­­­son sem Vladímír Pútín innlimaði sem landsvæði Rússlands á föstudag en Volodímír Selenskíj sagði í yfirlýsingu í gær að „nýjar byggðir hefðu verið frelsaðar á nokkrum lykilsvæðum.“

Með þessu hefur Rússland því ekki hernaðarleg yfirráð í neinu af þeim fjórum landsvæðum sem innlimuð hafa verið.

Selenskíj sagði að miklir bardagar geisuðu á fjöldamörgum svæðum í austurhluta landsins en fór ekki út í frekari smáatriði varðandi sókn Úkraínumanna. Blaðamönnum er meinaður aðgangur að fremstu víglínu átakanna og er þeirra vandlega gætt.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti ásamt Valdimir Saldo, rússneskum landstjóra Kerson-héraðs í Úkraínu.
Mynd/Getty

Vladímír Saldo sem skipaður var landstjóri yfir Kerson-héraði af Rússum staðfesti að Úkraínumenn hefðu náð yfirráðum í nokkrum byggðum innan héraðsins. „Það eru byggðir hér sem hersetnar eru af úkraínskum hermönnum,“ sagði hann en einnig benda upplýsingar til þess að Úkraínumenn hafi tekið þorpið Dúdtsjaníj sem liggur við bakka árinnar Dnépr.

Úkraínumenn frelsuðu borgina Líjman úr höndum Rússa á sunnudaginn stuttu eftir að yfirlýsing Pútíns um innlimun landsvæðanna var gefin út. Rússar hörfuðu hratt frá svæðinu og voru lík rússneskra hermanna skilin eftir í borginni sem bendir til þess að talsvert mannfall hafi orðið í bardaganum og að Rússar hafi þurft að flýja svæðið með hraði.