Rússneska sjónvarps- og blaðakonan Marina Ovsyannikova sem öðlaðist heimsfrægð þegar hún mótmælti stríðinu í beinni útsendingu á Rússnesku fréttastöðinni Channel One hefur nú flúið úr stofufangelsi.

Þetta kemur fram á fréttavef The Guardian en hún segist saklaus af þeim ásökunum sem bornar hafa verið upp á hana. Ovsyannikova átti að mæta fyrir dómstóla í dag en gerði það ekki og bar leit yfirvalda ekki árangur.

„Ég tel sjálfa mig fullkomlega saklausa af öllum ásökunum“ sagði Ovsyannikova í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum í dag „og þar sem ríki okkar neitar að fara eftir sínum eigin lögum þá neita ég að fara eftir þeim takmörkunum sem mér voru settar þann 30. September 2022 og lýsi sjálfa mig lausa frá þeim,“ sagði hún

Þá sendi hún einnig frá sér myndband þar sem hún gagnrýnir Pútín og segir að setja eigi ökklaband á hann fremur en hana fyrir þjóðarmorðið sem hann stendur fyrir í Úkraínu og dauða Rússneskra hermanna sem látast á vígstöðvunum.

Mótmælti stríðinu í beinni útsendingu

Ovsyannikova varð heimsfræg eftir að hún mótmælti stríðinu í Úkraínu á eftirminnilegan hátt með því að ganga með skilti inn í beina útsendingu á fréttastöðinni Channel One sem hún starfaði á.

Þar birti hún ákall til Rússnesku þjóðarinar að stöðva stríðið og sagði við fólk að verið væri að ljúga að því.

Ovsyannikova var fyrst sektuð fyrir atvikið um 30 þúsund rúblur eða um 75 þúsund íslenskar krónur fyrir að rjúfa bann við mótmælum.

Hún hætti í starfi sínu hjá Channel One en hætti þó ekki að mótmæla stríðinu og í ágúst var hún ákærð fyrir að dreifa fölskum upplýsingum um stríðið.

Hún var þá dæmd í stofufangelsi í Moskvu og átti yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm yrði hún fundin sek.