Skriða féll í morgun í Strákafjalli Siglufjarðarmegin við Strákagöng.

Stefanía Hjördís Leifsdóttir var á leiðinni til Siglufjarðar í morgun þegar hún kom fram á grjóthnullunga á veginum. Þau sem hafa ekið Siglufjarðarveg í gegnum tíðina vita hvað hann er oft á tíðum slæmur, sérstaklega þegar líður að hausti. Þar er margvísleg hætta, bæði mikið jarðsig og hætta á skriðuföllum, grjóthruni og snjóflóðum.

„Það er eins og rússnesk rúlletta að keyra þennan veg allan ársins hring,“ segir Stefanía í samtali við Fréttablaðið.

Stefanía var á leið með drengi sína í skimun á Siglufirði þegar hún sá grjóhnullunga á Siglufjarðarvegi.

„Ég held að við eigum eftir að sjá meira af þessu í haustrigningunni.“

Gunnar H Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðurlandi, segir að aukin hætta sé á grjóthruni á svæðinu á haustin.

„Ég held að við eigum eftir að sjá meira af þessu í haustrigningunni eftir þetta mikla þurrkasumar. Jarðvegurinn er gljúpur og opinn eftir sumarið og þegar það fer að rigna í þetta má eiga von á hruni,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið. „Svona eru aðstæður en það er engin framtíðarlausn nema ef við fáum í ný jarðgöng“

Gunnar segir að Vegagerðin hafi gert frumathugun á mögulegum göngum en þó er ekkert fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir í samgönguáætlun.

„Við erum að skoða tvo kosti, Annars vegar við Hraun og hins vegar í Nautadal en sú síðari er leiðin sem við viljum fara.

Stór grjóthnullungur á Siglufjarðarvegi í morgun.
Mynd: Stefanía Hjördís Leifsdóttir

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, segir Siglufjarðarveg vart ásættanlegan sem samgönguleið í nútíma samfélagi. Íbúar Fjallabyggðar séu að vísu vanir misjöfnun samgöngum líkt og margt landsbyggðarfólk, en á sama tíma fyllist eðlilega einhverjir óöryggi vegna þeirrar hættu sem skapast á veginum á haustin bæði vegna veðurs og ofanflóðahættu.

Miðað við gildandi samgönguáætlun má gera ráð fyrir að þarfar úrbætur, það er jarðgögn, komi að óbreyttu ekki til umræðu fyrr en eftir 10 til 15 ár að sögn Elíasar, enda hefur málum verið þannig háttað undanfarna áratugi að einungis sé ein gangnaframkvæmd í gangi á hverjum tíma. Því þurfi að breyta.

Hvað er hægt að gera?

„Við getum einfaldlega byrjað að bora göng. Það er ákvörðun sem þarf að taka. Við erum mjög háð samgöngum hér í Fjallabyggð og það þarf að fara í þetta verkefni. Að bora göng er lausn til langrar framtíðar,“ segir Elías.

Ferðamennska og sjávarútvegur eru meginstoðir atvinnulífs og mannlífs í Fjallabyggð og er Siglufjörður með eina stærstu löndunarhöfn landsins á þorski.

„Ferðamenn ferðast eftir vegakerfinu og sömuleiðis er miklum fiski landað hér og ekið eftir vegakerfinu suður. Þetta eru mikilvægar stoðir sem eru undir þessu vegakerfi komnar og um þær, rétt eins og aðra hluta samfélagsins þarf að standa vörð. Það verður meðal annars gert með bættum samgögnum“

Elías Pétursson bæjarstjóri.