Rússnesk-íslenska viðskiptaráðið hefur ekki verið lagt niður eftir að stríðið í Úkraínu hófst og stjórnarmaður veit ekki til úrsagna úr félaginu. 36 íslensk fyrirtæki eiga aðild, þar á meðal stórfyrirtæki á borð við Samherja, Brim, Marel, Lýsi hf. og Kaupfélag Skagfirðinga.

„Ég lít svo á að félagið sé í hálfgerðum dvala,“ segir Gunnþór Ingvason, stjórnarmaður og forstjóri Síldarvinnslunnar. Ekki sé eðlilegt sé að stunda viðskipti við Rússland í dag. „Þetta stríð er ömurlegt og ég held að það séu allir sammála þeim aðgerðum sem eru í gangi.“

Aðspurður um Síldarvinnsluna segir Gunnþór hana ekki hafa verið í viðskiptum við Rússland síðan matarinnflutningsbann var sett á árið 2015.

Gunnþór Ingvason stjórnarmaður í Rússnesk-íslenska viðskiptaráðinu

Rússnesk-íslenska viðskiptaráðið heyrir undir Viðskiptaráð og tók til starfa árið 2019. Tilgangurinn er að viðhalda góðum viðskiptatengslum milli landanna.

Í janúar hætti Ari Edwald sem formaður ráðsins. Hann sat fyrir hönd Mjólkursamsölunnar og Ísey skyrs en var rekinn eftir ásakanir um kynferðisbrot gegn Vítalíu Lazarevu.

Í gær greindu Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga frá því að framleiðslu Ísey skyrs í Rússlandi væri hætt en Fréttablaðið greindi frá því á fimmtudag að salan væri enn í gangi, mánuði eftir að stríðið hófst.

Nýr formaður ráðsins er Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech. Ekki náðist í hana fyrir vinnslu þessarar fréttar.

„Viðskiptaráðið er ekki hætt. Starfsemi er í gangi,“ segir Natalia Yukhnovskaya, stjórnarmaður sem situr fyrir iCan í Grindavík sem selur þorskalifur. „Ráðið fundaði eftir að stríðið byrjaði og ræddi hvaða erfiðleika við erum að stríða við. Við erum svolítið í pásu og bíðum og sjáum hvað gerist næst.“

Natalia segir fyrirtækin hafa átt í erfiðleikum með að fá greiðslur og að samskiptin milli landanna gangi erfiðlega. Hafi Viðskiptaráð ætlað að hafa milligöngu um að koma upplýsingum til utanríkisráðuneytisins um þá erfiðleika sem fyrirtækin standi frammi fyrir.

„Það er persónuleg ákvörðun hvers og eins fyrirtækis,“ segir hún aðspurð, um hvort það sé siðferðislega rétt að stunda viðskipti við Rússland meðan stríðið geisi. Hún segir fólk hafa mismunandi skoðanir á því hvort eigi að halda áfram að stunda viðskiptin eða hætta þeim. Enginn styðji þó þetta stríð.

„Við reynum að stíga varlega til jarðar og taka engar ákvarðanir í flýti,“ segir hún um framhaldið. Stefnt er að því að halda ársfund félagsins í apríl eða maí.