Rússnesk herflugvél flaug í heimildarleysi inn í lofthelgi Svíþjóðar á föstudagskvöldið og braut þannig gegn banni sem Svíþjóð hefur lagt við því að rússneskar flugvélar fljúgi yfir yfirráðasvæði þeirra.
Varnarmálaráðuneyti Svíþjóðar greinir frá þessu í fréttatilkynningu en sænskar orustuþotur eltu vélina og náðu af henni myndum. Um að ræða eina af skrúfuþotum rússneska hersins að gerðinni AN-30.
„Þetta er bæði ábyrgðarlaust og ófaglegt,” segir sænski hershöfðinginn Carl-Johan Edström, um málið í samtali við sænska ríkissjónvarpið.
Vélin sást fyrst austur af Borgundarhólmi og flaug þaðan í átt til Svíþjóðar. Hún flaug inn í lofthelgi Svíþjóðar suður af Blekinge.
Vladimir Pútín forseti Rússland hefur haft uppi hótanir gagnvart ýmsum Evrópuríkjum en ekki síst Svíum og Finnum sem íhuga nú alvarlega að sækja um aðild að Atlandshafsbandalaginu (NATO).
„Við fylgdumst með henni löngu áður en hún kom inn í lofthelgina og höfðum undirbúið viðbrögð þar sem þeir voru að nálgast sænskt yfirráðasvæði,” sagði Edström og hélt áfram: „Þegar vélin kom að okkar lofthelgi, flaug hún með mörkum hennar og það var þá sem vélin fór í stutta stund inn á yfirráðasvæði okkar.”
Hann segir að haft hafi verið samband við vélina sem yfirgaf lofthelgina í kjölfarið. Brotið hafi aðeins hafa varað í um eina mínútu.
Edström segir fullkomlega ábyrgðarlaust að fljúga herflugvél svo nálægt yfirráðasvæði annars ríkis. Engin ástæða hafi verið fyrir þessu og flugmaðurinn hefði vell getað haldið sig 10 til 15 kílómetrum frá lofthelginni til að koma í veg fyrir svona lagað.
Efast um ásetning
Aðspurður segir Edström þó ekkert benda til þess að um ásetning hafi verið að ræða.
„Þetta gætu vel hafa verið mistök,“ segir hann. Ekki sé talin hætta á vopnaðri árás Rússa í dag þótt ekki sé hægt að útiloka slíka árás síðar.
Þá megi vel búast við því að Rússar auki viðbúnað sinn í nágrenni við Svíþjóð með hliðsjón af til viðræðum um inngöngu Svíþjóðar í Atlandshafsbandalagið.
Búist er við að Finnland og Svíþjóð muni sækja sameiginlega um aðild að NATO um miðjan næsta mánuð. Bæði löndin hafa í gegnum árin tileinkað sér hlutleysisstefnu en landslagið hefur breyst undanfarnar vikur og mánuði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Rússar hafa hótað því að bregðast hart við ef Finnland og Svíþjóð sækja um aðild að NATO. Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur sagt að finnsk yfirvöld þyrftu að vera við öllu búin frá Rússum.
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar fordæmir þetta framferði og segir því verða mótmælt eftir diplómatískum leiðum.
Rússar hafa áður farið óboðnir inn í lofthelgi Svíþjóðar en í byrjun mars flugu fjórar rússneskar orustuþotur yfir sjóinn austur af Gautlöndum í Svíþjóð.