Rússlandi hefur verið vikið úr Evrópuráðinu, alþjóðasamtökum 47 ríkja í Evrópu sem Mannréttindadómstóll Evrópu heyrir undir.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Evrópuráðs. Þetta er hluti af þvingunaraðgerðum sem Evrópulönd beita gegn Rússum.

„Ráðherranefnd Evrópuráðs ákvað í dag að draga til baka aðildarréttindi Rússlands í ráðherranefndinni og að Evrópuráðsþingi. Þetta tekur gildi samstundis vegna innrásar Rússlands inn í Úkraínu,“ segir í tilkynningunni.

Nefndin tekur fram að um séu að ræða tímabundnar aðgerðir og að samskiptaleiðir séu enn opnar á milli nefndarinnar og Rússlands.

Evrópuráðið var stofnað 5. maí árið 1949. Helstu stofnanir Evrópu­ráðsins eru ráðherranefndin og Evrópu­ráðs­þingið. Alþingi hefur átt aðild að Evrópu­ráðsþinginu síðan 1950.

Markmið Evrópu­ráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildar­ríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum innan þeirra.

Ráðherranefnd Evrópuráðs kom saman til að ræða innrás Rússlands inn í Úkraínu.
Fréttablaðið/Getty images

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði Íslendinga styðja ákvörðunina um að víkja Rússum úr Evrópuráðinu í færslu á Twitter-síðu sinni.

„Í ljósi hrottafenginnar og tilefnislausrar árásar Rússlands á Úkraínu fagna ég þeim skilvirku viðbrögðum ráðherranefndarinnar að svipta Rússland samstundis seturétti sínum í Evrópuráðinu. Ísland studdi ákvörðunina.“