Rússland er nú orðin stærsti olíubirgir Kína en löndin tvö lýstu því yfir í febrúar að vinátta þeirra hefði engin takmörk.

BBC greinir frá.

Rússar hafa selt ódýra hráolíu til Peking eftir að refsiaðgerðir annarra ríkja hófust vegna innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar síðastliðinn.

Innflutningur á rússneskri olíu jókst um 55 prósent frá fyrra ári og sló þar með út Sádí-Arabíu sem var stærsti olíubirgir Kínverja.

Í frétt BBC kemur fram að stór kínversk fyrirtæki hafi aukið kaup sín á rússneskri hráolíu undanfarna mánuði.

Þeim hafi boðist mikill afsláttur á verði eftir að kaupendur í Evrópu og Bandaríkjunum hófu að sniðganga viðskipti við Rússa.

Í síðasta mánuði flutti Kína inn 8,42 tonn af olíu frá Rússlandi og 7,82 tonn frá Sádí-Arabíu.