Þorvarður Pálsson
Sunnudagur 22. ágúst 2021
12.00 GMT

Mann­réttinda­mál á Ís­landi er efni út­tektar rúss­neska utan­ríkis­ráðu­neytisins sem birt var í júlí.

Í upp­hafi út­tektarinnar segir: „Ís­land heldur þeirri í­mynd á lofti að landið sé einn mesti mál­svari mann­réttinda í heiminum. Yfir­völd leggja sömu­leiðis mikla á­herslu á mála­flokkinn innan­lands.“. Ráðu­neytið telur þó ekki allt með felldu og bendir á ýmis­legt sem megi bæta úr, að þess mati. Ís­lensk stjórn­völd að­hyllist hug­mynda­fræði ný­frjáls­hyggju og í þeim anda hafi lög­gjöf varðandi kyn­rænt hlut­leysi verið tekin upp, þar sem lög­festur er réttur til kyn­hlut­leysis og reglu­verki breytt varðandi nafn­giftir.

Frá Hin­segin dögum í Reykja­vík árið 2013 þar sem gengið var með skilti til stuðnings mann­réttindum þeirra.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Þau sem séu annarrar skoðunar varðandi mál­efni hin­segin fólks sæti hins vegar oft og tíðum of­sóknum og er nefnt dæmi um eitt slíkt mál, er Pétur Gunn­laugs­son á Út­varpi Sögu lét frá sér „ó­hefð­bundin“ um­mæli um hin­segin fólk í beinni út­sendingu árið 2016. Fyrir það var hann kærður af Sam­tökunum '78 en sýknaður af Héraðs­dómi Reykja­víkur árið 2017 þar sem ekki var talið að um hatursum­mæli væri að ræða.

Pétur Gunn­laugs­son var ­kærður fyrir hatur­s­orð­ræðu og út­breiðslu árið 2016.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson

Ný­nasistar gert sig gildandi

Í út­tektinni er einnig fjallað um hatur­s­orð­ræðu á Ís­landi. Þar segir að bar­áttu­fólk fyrir mann­réttindum hér hafi bent á vaxandi hatur­s­orð­ræðu, einkum í garð múslima. Í stjórn­mála­bar­áttu hafi borið á kyn­þátta­hatri, sem og einnig í fjöl­miðlum og á netinu. Múslimar og inn­flytj­endur hafi verið sakaðir um tengsl við hryðju­verka­hópa og ný­nasistum vaxið fiskur um hrygg. Að­gerðir stjórn­valda gegn því eru ekki full­nægjandi, að mati Rússa.

Í skýrslu nefndar Sam­einuðu þjóðanna um út­rýmingu kyn­þátta­mis­mununar frá 2019 kom fram að haturs­glæpir komi oft ekki á borð yfir­valda. Sömu­leiðis hefur Evrópu­nefndin gegn kyn­þátta­for­dómum og um­burðar­leysi nefnt að hér fari and­úð í garð múslima vaxandi. Á sama tíma hefði ný­nasistum vaxið fiskur um hrygg.

Leið­togi ný­nasista­sam­takanna Nor­dic Resistance Movement (NRM), sem voru bönnuð í Finn­landi árið 2017, kom hingað til lands árið 2019. Um tíu til fimm­tán stuðnings­menn hreyfingarinnar komu saman á Lækjar­torgi í Reykja­vík og mót­mæltu því að er­lendir ríkis­borgarar fengju að setjast að hér. Mót­mælin voru haldin í sam­starfi við ís­lensku ný­nasista­sam­tökin Norður­vígi. Mót­mælt var einnig víðar um landið.

Ný­nasista­sam­tökin Nor­dic Resistance Movement og Norður­vígis mót­mæltu á Lækjar­torgi í septem­ber árið 2019.
Fréttablaðið/Anton Brink

Al­þjóð­leg sam­tök sem berjast gegn gyðinga­hatri sendu Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra bréf í fyrra þar sem á­hyggjum var lýst af upp­gangi ný­nasista. Þess var farið á leit við for­sætis­ráð­herra að hún beitti sér fyrir því að grípa til að­gerða vegna vaxandi gyðinga­haturs og fylgdi for­dæmi Finna og bannaði NRM-sam­tökin. Bréf voru auk þess send til stjórn­valda í Dan­mörku, Noregi og Sví­þjóð.

Í út­tekt rúss­neska utan­ríkis­ráðu­neytisins er vakin at­hygli á á­standi trú­frelsis á Ís­landi, meðal annars þar sem ekki væri skilið milli ríkis og kirkju. And­stöðu hefur gætt í garð byggingu mosku í Reykja­vík en árið 2013 var svíns­hausum dreift þar sem moskan mun rísa. Man­sal á Ís­landi er einnig til um­fjöllunar og segir að er­lendar konur séu helst þol­endur þess. Lög­regla fái ekki nægt fjár­magn til að rann­saka slíkt og í fáum til­fellum sé á­kært. Nefnd Sam­einuðu þjóðanna um út­rýmingu mis­munar gegn konum sagði í skýrslu árið 2016 að úr­bóta væri þörf í mála­flokknum.

Starfs­menn Reykja­víkur­borgar fjar­lægja svíns­haus af lóð fyrir­hugaðrar mosku í Safa­mýri í Reykja­vík.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Há tíðni heimilisofbeldis

Ísland hefur síðustu tólf ár vermt topplista Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti en Rússland er nú í 81. sæti. Þrátt fyrir að Ísland státaði af einu jafnasta samfélagi heims er kemur að málefnum kynjanna segir í úttektinni að tíðni heimils- og kynferðisofbeldis sé há og erfitt fyrir þolendur að leita réttar síns, meðal annars vegna vantrausts dómstóla á þolendum. Mörg slík mál falli niður í meðferð saksóknara og fátítt sé að dómar falli í þeim, samkvæmt nefnd Sameinuðu þjóðanna. Þess utan leituðu þolendur oft og tíðum ekki til lögreglu vegna heimilisofbeldis, meðal annars vegna vantrausts á lögreglu. Á heimsvísu séu 38 prósent morða á konum framin af karlkyns maka en á Íslandi sé hlutfallið 50 prósent samkvæmt gögnum frá lögreglu.

Kynferðisofbeldi er landlægt á Íslandi að því er segir í úttektinni. Vísað er í rannsókn Háskóla Íslands frá 2018 þar sem kom fram að einni af hverjum fjórum konum á Íslandi hefði verið nauðgað eða þær beittar annars konar kynferðisofbeldi á ævinni. Samkvæmt Stígamótum séu einungis lagðar fram kærur í um tólf prósentum tilfella. Heimilisofbeldi hérlendis hafi aukist í Covid-faraldrinum, líkt og í mörgum öðrum Evrópuríkjum.

Rúss­nesk stjórn­völd gagn­rýnd

Rússar eru líkt og Ís­lendingar bundnir mörgum al­þjóða­samningum um mann­réttinda­mál, þar á meðal samningi um verndun mann­réttinda og mál­frelsis, samningi um borgara­leg og stjórn­mála­leg réttindi og fleirum. Skrif­stofa erind­reka Sam­einuðu þjóðanna í mann­réttinda­málum gerði árið 2017 út­tekt á stöðu mann­réttinda í Rúss­landi. Þar segir meðal annars að þar sé mis­notkun á er­lendu verka­fólki mikið vanda­mál, það búi margt við lág laun og tak­markaðan að­gang að vel­ferðar­kerfinu.

Í Rúss­landi eru hvorki sam­kynja hjóna­bönd né ó­vígð sam­bönd fólks af sama kyni leyfð. Í lögum um fjöl­skyldu­mál sé hjóna­band í reynd skil­greint sem hjóna­band karls og konu. Mann­réttinda­sam­tök segja að í reynd sé bannað að tala máli hin­segin fólks opin­ber­lega. Erind­reki SÞ í mann­réttinda­málum hefur hvatt stjórn­völd til að gera úr­bætur á lög­gjöf um kyn­þátta­mis­munun öfga­hópa og grípa til að­gerða gegn þeim.

Bar­áttu­fólk fyrir réttindum hin­segin fólks mót­mælir að­gerðum rúss­neskra stjórn­valda gegn þeim árið 2017.
Fréttablaðið/EPA

Man­sal er al­gengt í Rúss­land, einkum í vændi. Stjórn­völd hafa verið gagn­rýnd af mann­réttinda­sam­tökum fyrir að grípa ekki til að­gerða gegn því. Heimilis­of­beldi er mikið vanda­mál í Rúss­landi og sam­kvæmt út­tekt þings landsins er slíku of­beldi beitt í einni af hverjum tíu fjöl­skyldum. Þá leita 35 prósent þol­enda ekki til lög­reglu. Konur eru um 80 prósent þol­enda og þar á eftir koma börn og aldraðir.

Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra ræddi mann­réttinda­mál við rúss­neskan starfs­bróður sinn Sergei Lavrov í maí. Guð­laugur undir­strikaði mikil­vægi þess að standa við al­þjóð­legar skuld­bindingar í mann­réttindum.

Guð­laugur Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra og Sergei Lavrov, utan­ríkis­ráð­herra Rúss­lands, funduðu í Hörpu í maí.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ýmis­legt vekur furðu

Jón Ólafs­son, prófessor við hug­vísinda­svið Há­skóla Ís­lands, segir ýmis­legt koma sér undar­lega fyrir sjónir við lestur skýrslunnar. Hann segir vinnu­brögðin vekja upp spurningar – en einnig sé munur á stöku stað á hug­tökum milli rúss­neskrar og enskrar út­gáfu skýrslunnar. Til að mynda sé Pétur Gunn­laugs­son í rúss­neska textanum sagður hafa talað „frjáls­lega“ um hin­segin fólk, en í þeim enska sé hann sagður hafa haldið fram ó­hefð­bundnum sjónar­miðum. Sam­­kvæmt vef utan­­­ríkis­ráðu­neytis Rúss­lands er um ó­­opin­bera þýðingu að ræða.

Jón segir að hver stjórnar­and­stöðuhópurinn í Rúss­landi á fætur öðrum hafi verið sakaður um öfga­skoðanir.
Fréttablaðið/Anton Brink

Jón segir að rúss­nesk stjórn­völd leggi mjög víðan skilning í hug­takið öfgar (e. extrem­ism), en upp á síð­kastið hefur hver stjórnar­and­stöðuhópurinn á fætur öðrum verið sakaður um öfga­skoðanir vegna mál­flutnings sem í vest­rænum skilningi er í mesta lagi rót­tækur. Þetta á ekki síst við um hreyfingu stjórnar­and­stæðingsins Alek­seis Naval­ní.

Alek­­sei Naval­ny var dæmdur til fangelsis­vistar í febrúar. Fjöl­menn mót­mæli voru víða um Rúss­land eftir hand­töku hans.
Fréttablaðið/EPA

Það má tengja vaxandi hörku gegn stjórnar­and­stöðunni í Rúss­landi við þing­kosningarnar 17. septem­ber – stjórn­völdum er mjög í mun að tryggja Sam­einuðu Rúss­landi á­fram­haldandi þing­meiri­hluta. Þótt þessi skýrsla sé ekki í neinu beinu sam­hengi við kosningarnar, er nær­tækast að tengja hana við and­rúms­loft væni­sýki sem ein­kennir pólitískt á­stand í Rúss­landi nú, að því er Jón telur.

Svipað má segja um skilninginn á „ný­frjáls­hyggju“ (e. neoli­beral­ism). Vaxandi menningar­leg í­halds­semi meðal ríkjandi afla í Rúss­landi á síðustu árum birtist meðal annars í þeirri af­stöðu að við­tekin frjáls­lynd við­horf séu til marks um hrörnun vest­rænnar sið­menningar. Þessu er svo gjarnan lýst sem ný­frjáls­hyggju – þótt slík notkun hug­taksins sé í litlu sam­ræmi við fræði­legan eða pólitískan skilning á því á Vestur­löndum.

Athugasemdir