Varnar­mála­ráð­herra Rúss­lands segir Maríu­pol fallna í hendur rúss­neskra her­manna, fyrir utan málm­vinnsluna Azovs­tal þar sem enn eru úkraínskir her­menn.

Að sögn varnar­mála­ráð­herrans, Sergei Shoigu, hafa 1.478 úkraínskir her­menn gefið sig upp til Rússana en um tvö þúsund her­menn sitji enn kyrrir fyrir í verk­smiðjunni.

Að­stoðar­for­sætis­ráð­herra Úkraínu, Iryna Vereshchuk, segir eitt þúsund al­menna borgara hafa leitað skjóls í verk­smiðjunni og fimm hundruð særðir her­menn. Hún kallar eftir því að mann­úðar­göngum verði komið fyrir til að hleypa fólkinu frá verk­smiðjunni.

Shoigu segir verk­smiðjuna um­kringda og öruggt að fólk komist ekki þaðan út. Sam­kvæmt frétta­stofunni Reu­ters hefur Pútín óskað Shoigu til hamingju með á­fangann og fyrir­skipað að ekki svo mikið sem ein fluga komist út úr verk­smiðjunni.

Pútín heldur því þó fram að allir geti sloppið lifandi út úr verk­smiðjunni ef þau gefa sig fram til Rússanna. Úkraínski herinn hefur hingað til neitað að gefa upp þessa síðustu víg­stöð í Maríu­pol.

Shoigu sagði að að­stæður í Maríu­pol séu nú ró­legar og að brátt verði mögu­legt fyrir al­menna borgara að leggja leið sína þangað á ný. Hann heldur því einnig fram að rúss­neski herinn hafi flutt 142 þúsund al­menna borgara frá borginni.

Ekki er alveg víst hvers vegna Shoigu heldur því núna fram að borgin sé fallin þar sem staðan er ekki svo ólík því sem var fram að þessu. En nú virðist sem rúss­neski herinn muni ekki lengur gera til­raunir til að ná verk­smiðjunni, enda hafi fyrri til­raunir ekki gengið eftir. Þess í stað eigi að passa að fólk komist ekki út nema að gefast upp.