Rússneski hernaðarsérfræðingurinn og fyrrum hershöfðinginn, Evgeny Buzhinsky, segir að komi til kjarnorkustríðs í Evrópu muni Bretland eins og við þekkjum það „hætta að vera til“.

Þetta kemur fram á vef fréttamiðilsins mirror en Buzhinsky beindi orðum sínum sérstaklega til Breska hershöfðingjans Sir Patrick Sanders sem tók við stjórn landhers Bretlands núna um helgina.

„Hann (Sanders) skilur ekki að ef það kemur til þriðju heimstyrjaldarinnar mun Bretland hætta að vera til, eyjan mun hverfa,“ sagði Buzhinsky.

Er hann þá talin svara yfirlýsingu Sanders sem hann gaf út síðustu helgi er hann tók við stöðu sinni sem yfirmaður Breska landhersins. Þar talaði Sanders um að síðan 24. Febrúar, þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst, hefði heimurinn breyst. Bretland þyrfti nú að vera undirbúið undir það að berjast.

„Nú er skýr þörf að móta her sem getur barist samhliða bandamönnum okkar og sigrað Rússland í orrustu,“ sagði Sir Patrick Sanders.

Þetta er þvert á það sem Boris Johnson sagði fyrir fyrir þingi síðasta nóvember, áður en innrás Rússa hófst en þar talaði hann um að „sú tíð þar sem skriðdrekar rúlla í gegnum Evrópu væri liðin“.

Bretar hafa minnkað her sinn statt og stöðugt síðan 2010 og hefur stærð hans minnkað úr 100.000 hermönnum í 75.000 hermenn síðan þá.

Nú sé hinsvegar unnið að því að reyna að stækka og nútímavæða Bretlandsher í takt við þær aðgerðir sem aðrar þjóðir innan Evrópu hafa farið í síðan innrás Rússa hófst.