„Ofbeldisaðferðir virka ekki gegn Damörku,“ sagði Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Dana, í gær eftir að rússneskt herskip hafði í tvígang þá um nóttina siglt í leyfisleysi inn í danska lögsögu.

Atvikið varð í Eystrasalti norður af Christiansø við Borgundarhólm. Þá var rússneskri smáfreigátu siglt inn í lögsögu Dana, fyrst klukkan hálf þrjú um nóttina og svo aftur tveimur tímum síðar að sögn Danmarks Radio.

„Þetta er gróft brot og ögrun af hálfu Rússa gegn Dönum og dönsku yfirráðasvæði,“ sagði Morten Bødskov varnarmálaráðherra sem kvað siglingu Rússanna ekki hafa verið tilviljun.

Kofod utanríkisráðherra sagði ögrun Rússa afar óábyrga og grófa. Sendiherra Rússa í Danmörku var í gær kallaður til samtals í utanríkisráðuneytinu. Bødskov varnarmálaráðherra lýsti ánægju með að sendiherrann hafi verið kallaður á teppið og kvaðst vona að hann tæki loks mark á skilaboðunum.

„Fram til þessa má segja að í þeim samtölum sem rússneski sendiherrann hefur tekið þátt í hefur hann átt dálítið erfitt með skilja hvar landamæri Danmerkur liggja,“ útskýrði Bødskov að sögn DR.

„Þetta er tilraun Rússa til að skjóta Dönum skelk í bringu. Mín skoðun er sú að það muni ekki takast hjá þeim heldur hafa þveröfug áhrif,“ sagði Kenneth Øhlenschlæger Buhl, sérfræðingur við danska varnarmálaskólann, við Danmarks Radio.