Rússar og Úkraínumenn hafa undirritað formlegt samkomuleg til þess að tryggja örugga útflutninga á úkraínsku kornmeti frá höfnum við Svartahaf. Komist var að samkomulaginu eftir samningaviðræður í Istanbúl með milligöngu Receps Tayyip Erdoğan, forseta Tyrklands.

Samkvæmt samkomulaginu, sem undirritað er af fulltrúum Rússlands, Úkraínu, Tyrklands og Sameinuðu þjóðanna, verður flutningaskipum með korn innanborðs leyft að sigla gegnum tiltekna leið í Svartahafi og fara svo í gegnum Bosporussund til þess að komast út á alþjóðamarkaði.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er meðal þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið. Í ræðu sem hann flutti við kynningu þess kallaði hann samninginn „samkomulag fyrir heiminn“ og lýsti því yfir að þetta væri það mikilvægasta sem hann hefði gert sem aðalritari.

Truflanir á útflutningi korn- og hveitiafurða frá Úkraínu hafa stuðlað að hækkun í matvælaverði á heimsvísu og hafa leitt til áhyggja af því að heimurinn lendi í allsherjar matvælakreppu.

Samhliða samkomulaginu um siglingu kaupskipanna um Svartahaf var komist að samkomulagi til að auðvelda Rússum að flytja út vörur á borð við áburð. Þessar vörur sæta ekki efnahagsþvingunum en Rússar hafa þó átt erfitt með að flytja þær úr landi vegna erfiðleika við að semja við alþjóðleg skipaflutningafélög.

Þótt Rússar græði þannig einnig á samkomulaginu hafnaði Guterres því í viðtali við Orlu Guerin, blaðakonu hjá BBC, að verið væri að verðlauna Rússa fyrir slæma hegðun. Um væri að ræða skilmála sem væru Úkraínu og heimsbyggðinni bráðnauðsynlegir en skiptu Rússa takmörkuðu máli. Þrátt fyrir samkomulagið viðurkenndi Guterres að hann sæi ekki fram á möguleika á friðarviðræðum.

„Ég hef áhyggjur af því að þessa stundina sé ég engin skilyrði fyrir friðarferli,“ sagði Guterres. „Þetta er ljóst, ekki einu sinni fyrir almennu vopnahléi. Ég held ekki að við séum nálægt því.“