Rússar og leiðtogar Evrópusambandsins hafa skipst á lítt duldum hótunum undanfarna daga með því að senda táknræna muni sín á milli.

Fyrir tveimur dögum birti Jevgeníj Prígozhín, eigandi rússnesku málaliðasamtakanna Wagner-hópsins, myndband þar sem lögfræðingur hans sást afhenda öðrum manni fiðluhylki, en í hylkinu var sleggja með blóðugu skafti og ágreiptu kennimarki Wagner-hópsins. Samkvæmt myndbandinu var áætlað að sleggjan yrði afhent Evrópuþinginu.

Þessi kjörningur ku vera andsvar við ákvörðun Evrópuþingsins um að samþykkja ályktun á miðvikudaginn þar sem Rússland var lýst hryðjuverkaríki. Rússneskir fjölmiðlar höfðu eftir Prígozhín að hann „harmaði“ ályktun Evrópuþingsins og hefði rætt hana við foringja Wagner-hópsins.

„Ég veit ekki hvaða lög Evrópuþingið hefur að leiðarljósi en samkvæmt okkar löggjöf lýsum við Evrópuþingið leyst upp frá og með deginum í dag,“ var haft eftir Prígozhín. „En áður en sú framkvæmd tekur gildi var mér falið að færa Evrópuþinginu tösku með skilaboðum.“

Sleggjan, sem virðist vera „skilaboðin“ sem Prígozhín átti við, er líklega vísun í myndband sem birtist nýverið þar sem liðsmenn Wagner-hópsins sáust taka liðhlaupa úr hópnum af lífi með því að berja höfuð hans með sleggju. Prígozhín hafði hrósað því myndbandi og sagt það dæmi um „frábæra leikstjórn“.

Nú hefur Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, svarað Prígozhín með því að senda öskju til Haag í Hollandi. Í henni eru handjárn sem Reinsalu segir muni bíða Prígozhín þegar hann verði færður fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólinn í Haag.

„Rússneskir hryðjuverkamenn eru að hlæja að fórnarlömbum í Úkraínu,“ sagði Reinsalu í myndbandi á Twitter-síðu sinni. „Í þessari viku sendi Prígozhín sleggju slátrara til Evrópuþingsins eftir að þingið viðurkenndi Rússland sem stuðningsaðila hryðjuverka. Ég mun senda þessi handjárn til höfuðstöða Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag, þar sem þau munu bíða Prígozhíns vegna glæpa hans gegn úkraínsku þjóðinni.“