Rússneska utanríkisráðuneytið hyggst veita breska sendiherranum í Moskvu áminningu í kjölfar átaka sem urðu milli bresks herskips og rússneska flotans á Svartahafi á miðvikudaginn, samkvæmt tilkynningu frá Maríu Zakharovu, talskonu ráðuneytisins.

Rússar halda því fram að þeir hafi hleypt af viðvörunarskotum og varpað sprengjum í veg fyrir breska tundurspillinn HMS Defender undan ströndum Krímskaga. Saka þeir Breta um að hafa rofið langhelgi Rússlands. Þessu hafnar breski utanríkisráðherrann Dominic Raab, sem segir að tundurspillirinn hafi verið á leið í gegnum úkraínska landhelgi í samræmi við alþjóðleg siglingalög og hafnar því jafnframt að Rússar hafi skotið að breska skipinu.

Rússland innlimaði Krímskaga árið 2014 en Bretland lítur enn á skagann og hafið í kringum hann sem úkraínskt landsvæði. George Eustice, umhverfis- matvæla- og landsbyggðarráðherra Bretlands, sagði við Sky News að „auðvitað“ myndu bresk herskip halda áfram að sigla um þessi umdeildu mið: „Við viðurkenndum aldrei innlimunina á Krímskaga. Þetta var úkraínsk landhelgi.“ Breski tundurspillirinn hafi verið á leið til Georgíu og bresk skip muni áfram nýta sér fljótlegustu og rökréttustu siglingaleiðirnar eins og alþjóðalög heimila.

„Hvað getum við gert?“ spurði Sergei Rjabkov, varautanríkisráðherra Rússlands, samkvæmt frétt eftir rússneska fréttamiðilinn TASS. „Við getum biðlað til heilbrigðar skynsemi, krafist virðingar við alþjóðalög. Ef það stoðar ekki getum við varpað sprengjum bæði í átt að og beint á skotmörk, ef kollegar okkar skilja þetta ekki.“