Rússneski þingmaðurinn Andrey Gurulyov, náinn bandamaður Vladimír Pútín Rússlandsforseta, segir að Rússar muni fyrst ráðast á London, höfuðborg Bretlands, brjótist þriðja heimsstyrjöldin út.
Andrey, þingmaður Sameinaðs Rússlands og fulltrúi í varnarmálanefnd rússneska þingsins, var í viðtali í rússneska sjónvarpinu þar sem hann varpaði þessu fram.
Ástandið í Evrópu er eldfimt um þessar mundir vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þá hefur það ekki verið til að lægja öldurnar að Litáar lokuðu á dögunum fyrir vöruflutninga til Kalíningrad, rússnesks yfirráðasvæðis milli Litáens og Póllands.
Andrey segir að mögulega verði Rússum ekki önnur leið fær en að ráðast inn í Eystrasaltsríkin sem eru fulltrúar NATO. Ef svo færi er ljóst að NATO yrði að bregðast við og gætu afleiðingarnar orðið allsherjarstríð Rússa og aðildarþjóða NATO.
Andrey segir að Rússar séu hvergi bangnir og tilbúnir að svara fyrir sig af hörku. „Við munum ekki byrja á Varsjá, París eða Berlín. Við munum byrja á London. Það er deginum ljósara að mesta ógnin sem heimurinn stendur frammi fyrir er þar,“ sagði hann ákveðinn.
Í frétt breska blaðsins Mirror kemur fram að Andrey hafi verið settur á svartan lista hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum vegna tengsla hans við Vladimír Pútín. Þá er bent á að í febrúar síðastliðnum hafi náðst upptaka af honum þar sem hann hvatti rússneska hermenn til að brenna heimili Úkraínumanna og henda þeim út á götu.