Rússar hafa farið fram á sönnun þess að taugaeitrið sem notað var gegn fyrrverandi njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans sé rússneskt. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir ásakanir Breta í garð rússneskra stjórnvalda þvætting og þvertekur fyrir að þeir muni veita Bretum aðstoð í það að leysa málið fyrr en sannanir berast fyrir því að eitrið sé þeirra.

Theresea May, forsætisráðherra Bretlands, flutti í gær harðorða ræðu í neðri deild breska þingsins þar sem hún gaf Rússum frest til miðnættis í kvöld til þess að svara fyrir eitrið.

Sjá einnig: Skripal-leik Rússa og Breta fram haldið

May sagði tvennt koma til greina. Annaðhvort ættu rússnesk stjórnvöld beinan þátt í því að eitra fyrir Skripal og dóttur hans eða þá að þau hafi misst stórhættulegt taugaeitur, sem er af gerðinni „novichok“, í hendur annarra aðila.

Sagði hún enn fremur að utanríkisráðuneytið hafi verið í sambandi við stjórnvöld í Moskvu út af málinu. Kreml hefði til dagsloka í dag til að senda frá sér „trúverðugt svar“, ella myndu Bretar álykta að um ólögmæta notkun valds á erlendri grund hefði verið að ræða. Muni ekkert svar liggja fyrir mun fulltrúadeild breska þingsins ræða málið á fundi á morgun.

Skripal-feðgin liggja enn meðvitundarlaus á spítala eftir að hafa komist í tæri við eitrið í Salisbury. Lögreglumaðurinn Nick Bailey kom fyrstur að þeim og var hann um tíma meðvitundarlaus líka. Ástand hans er talið alvarlegt en hann hefur þó getað haft samband við fjölskyldu sína eftir að hann komst til meðvitundar.