Rússar hafa nú náð fullri stjórn á borginni Severodonetsk í Úkraínu, en það þykir líklega vera stærsti hernaðarsigur Rússa í meira en mánuð. Borgarstjóri Severodonetsk hefur staðfest þetta.

Reuters fjallar um málið en í frétt miðilsins segir að  Severodonetsk hafi eitt sinn verið heimili rúmlega 100 þúsund manns, en sé núna rústir einar.

Yfirráðin í borginni þýða að Rússar eru nú nánast með fullt vald í Lúhansk-héraði. Héraðið er í austurhluta Úkraínu, en vendingarnar þykja gjörbreyta sviðsmyndum um gang stríðsins þar.

Talið er að Rússar geti þar með farið að einbeita sér að því að hernema önnur svæði, en þó er búist við því að Úkraínuher gæti beitt gagnárásum að borginni.

Stjórnvöld í Úkraínu höfðu gefið út að þau ætluðu sér að draga hermenn úr Severodonetsk vegna ótta um að borgin yrði umkringd Rússum.