Rússneskar hersveitir koma sér nú fyrir á svokölluðu öryggissvæði við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Rússar sendu hersveitir sínar af stað til landamæranna í dag í kjölfar samkomulags sem náðist við Tyrki og miðar að því að koma hersveitum Kúrda burt frá landamærunum. BBC greinir frá.

Fá 150 klukkutíma til að forða sér

Nú þegar hafa hersveitirnar komið sér fyrir í bæjunum Kopbane og Manbij í Sýrlandi. Leiðtogar Tyrklands og Rússlands sömdu um það í gær að búa til svokallað öryggissvæði við landamærin þar sem fyrirhugað er að koma um tveimur milljónum sýrlenskra flóttamanna fyrir.

Rússar og Tyrkir hafa gefið hersveitum Kúrda 150 klukkustundir til að koma sér af svæðinu sem nær rúma 30 kílómetra inn í Sýrland. Samkvæmt samkomulaginu munu Tyrkir fara með stjórn þess svæðis í Sýrlandi sem þeir hafa tekið en rússneskir hermenn munu hjálpa þeim með eftirlit.

Innrás Tyrkja inn í landið hófst eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í byrjun október að flytja bandaríska hermenn frá norðurhluta Sýrlands. Kúrdar nutu þá ekki lengur verndar þeirra en Tyrkir hafa lengi litið á þá sem hryðjuverkahóp.