Rússneski herinn hefur hafið áhlaup til þess að umkringja borgirnar Lysytsjansk og Sjevjerodonetsk á austurbakka Donetsfljótsins í Lúhansk-héraði. Liðnir eru þrír mánuðir síðan Rússar hófu innrás í Úkraínu og borgirnar tvær eru með síðasta landsvæðinu sem Úkraínumenn stjórna enn innan Donbas-héraðanna í austurhluta landsins.

„Óvinurinn hefur einsett sér að halda fram áhlaupi til að umkringja Lysytsjansk og Sjevjerodonetsk,“ sagði Serhíj Hajdaj, héraðsstjóri úkraínskra stjórnvalda í Lúhansk. „Sprengjuregnið yfir Sjevjerodonetsk hefur margfaldast og er einfaldlega að leggja borgina í rúst.“ Fjögur létust í sprenguárás á hús í borginni í nótt. Í sjónvarpsávarpi bætti Hajdaj því við að um 15.000 manns væru eftir í borginni og að hún væri enn undir stjórn úkraínska hersins.

Hajdaj sagði að úkraínskum hermönnum hefði tekist að reka Rússa burt frá þorpinu Toshkívka sunnan við Sjevjerodonetsk. Dmíjtro Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði áhlaup Rússa í Donbas vera stærsta hernaðaráhlaup á evrópskri grundu síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Hann biðlaði til bandamanna Úkraínu að hraða vopnasendingum til landsins þar sem ekki væri útséð að úkraínsk stjórnvöld væru nógu vel vígbúin til að verjast sókn Rússa.

Kúleba sakaði Rússa jafnframt um að hafa stolið úkraínsku korni og flutt það í gegnum Bospórussund til að selja það erlendis. Kúleba hvatti erlend ríki til að kaupa ekki stolið korn af Rússum og sagði að enginn nyti góðs af því að gerast þjófsnautur.

Leiðtogar um allan heim hafa að undanförnu lýst yfir áhyggjum af hafnarbanni Rússa gegn matvælaflutningi frá úkraínskum höfnum. Úkraína er með afkastamestu hveitiframleiðendum í heimi og hefur lengi flutt út hveitivörur á skipum í gegnum Svartahaf. Milljónir tonna af hveiti og korni hafa nú safnast upp í úkraínskum höfnum en komast hvergi vegna rússneskra herskipa sem loka á siglingar kaupskipa frá ströndum Úkraínu. Óttast er að þessi truflun á matvælaflutningi kunni að stuðla að hungursneyðum í löndum sem líða skort.

„Ef þið eruð yfirhöfuð með hjarta verðið þið í guðs bænum að opna hafnirnar,“ sagði David Beasley, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, í síðustu viku. „Þetta snýst ekki bara um Úkraínu. Þetta snýst um þau allra snauðustu sem eru á barmi hungurdauða í þessum töluðum orðum.“