Rússneski erindrekinn Dímítrí Kozak lýsti því yfir á ráðstefnu í Moskvu í vikunni að Rússar yrðu að skerast í leikinn ef átökin í Donbass í austurhluta Úkraínu mögnuðust enn frekar. Rússneskir uppreisnarmenn tóku héraðið með valdi árið 2014 og vitað er að stjórnin í Kreml hvatti og studdi við uppreisnina. Vesturveldin hafa hins vegar fordæmt valdatökuna og beitt efnahagsþvingunum gegn Rússum.

Átök hafa aukist í héraðinu undanfarnar vikur og ásakanir um brot á vopnahléi fljúga á milli aðila. Kozak gekk svo langt að líkja ástandinu við fjöldamorðið á Bosníumönnum í bænum Srebrenica árið 1995. „Þá verðum við að koma þeim til varnar,“ sagði hann. Varaði hann Úkraínumenn við að ef þeir héldu árásum sínum áfram væri það upphafið að endalokum landsins.