Skip fullt af úkraínsku korni hefur siglt frá höfninni í Odesa, en það er fyrsta skipið til þess að gera það frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar á þessu ári, að sögn inn­viða­ráð­herra Úkraínu. The Guar­dian greinir frá þessu.

Skipið sigldi frá höfninni með 26 þúsund tonn af korni og er á­fanga­staðurinn Líbanon. Rússar og Úkraínu­menn undir­rituðu fyrr í júlí sam­komu­lag til þess að tryggja út­flutning á úkraínsku korni frá höfnum við Svarta­haf.

Þrátt fyrir undir­ritun samningsins fóru margir að efast að Rússar myndu virða hann en sólar­hring eftir undir­ritun fjölgaði rúss­neskum her­mönnum á höfnum Odesa. Rússar skutu síðan niður úkraínskt skip við höfnina en þeir rétt­lættu það með því að segja að skipið hafi borið vopn en ekki korn.

Inn­viða­ráð­herra Úkraínu, Oleksandr Kubra­kov, sagði Úkraínu vera að taka fyrsta skrefið til þess að koma í veg fyrir hungur­sneyð í heiminum. Hann sagði Úkraínu hafa gert hvað sem er til þess að geta siglt aftur frá höfnum Svarta­hafs. Hann sagði eining að með til­komu þess að skip séu byrjuð að sigla aftur þaðan veiti það úkraínska efna­hagnum milljarð Banda­ríkja­dollara í er­lendum gjald­eyri.

Úkraína er stærsti korna­fram­leiðandi í heimi. En frá inn­rás Rússa hefur safnast upp mikið af korni sem ekki hefur náðst að senda úr landi, eða um tuttugu milljón tonn. Hindrun Rússa hefur valdið gríðar­legri hækkun á verði á korni á­samt því að valda kornskorti víða um heim.