Rússar hafa nú eyðilagt allar þrjár brýrnar sem tengja úkraínsku borgina Sverodonetsk í Luhanskhéraði sem stendur á austurbakka árinnar Donets við Lysychansk borgina á vesturbakkanum.

The Guardian greinir frá.

Brýrnar voru eina undankomuleið Úkraínumanna út úr borginni og nú eru hermenn og almennir borgarar fastir þar.

Ekkert lát hefur verið á sprengjuárásum Rússa á borgina en stórskotahríð hefur dunið á iðnaðarhverfi þar sem um 500 almennir borgarar hafa leitað skjóls.

Sergei Haidai, héraðsstjóri Luhankshéraðs, segir Rússa hafa náð borginni að miklu leyti á sitt vald en áfram væri þó hluti borgarinnar undir stjórn Úkraínumanna.

Rússneski herinn hafði áður sprengt upp eina brú en á sunnudag var önnur sprengd og sú þriðja fór í gær.

Þar með hefur öllum flóttaleiðum fyrir almenna borgara til vesturs verið lokað og óttast að atburðarásin næstu daga gæti orðið svipuð þeirri og gerðist í borginni Maríupol.